Holtakot vígður

Vígsla á heilsuleikskólanum Holtakoti á Álftanesi fór fram fimmtudaginn 28.apríl á 5 ára afmæli skólans. Dagurinn var þannig að athöfnin byrjaði klukkan 9.00 með því að elstu börn skólans sungu 3 lög fyrir gesti. Síðan sagði Ragnhildur Skúladóttir leikskólastjóri frá sögu skólans, vinnu starfsfólks og áherslum frá upphafi og hvernig leikskólinn þróaðist út í að verða Heilsuskóli. Lagði hún áherslu á hvað Heilsubók barnsins væri mikið gull þar sem hún rammar inn faglegt starf leikskólans og er mikil og góð gjöf til foreldra að leikskólagöngu lokinni.

Síðan hélt formaður Samtaka Heilsuleikskóla og móðir stefnunnar Unnur Stefánsdóttir ræðu, þar sem hún sagði frá upphafi stefnunnar og áherslum, auk þess að segja sögu Holtakots í að verða Heilsuskóli. Síðan afhenti hún skjal sem vottar að Holtakot sé orðinn Heilsuleikskóli og fánann.

Eftir það var fánanum flaggað, leikskólastjóri og börn úr Krakkakoti komu og færðu Holtakoti gjöf og héldu smá ræðu, bæjarstjórnin kom og hélt smá ræðu einnig og færði leikskólanum blómvönd og er mikil ánægja hjá þeim að skólinn hafi tekið þetta skref.

Að ræðuhöldum loknum sungu gestir afmælissöng fyrir leikskólann og svo fengu sér allir veitingar sem voru í boði. Það var vel mætt á athöfnina og mikil gleði og ánægja ríkti í starfsmannahópnum með þennan áfanga og er Holtakot ákaflega stolt að tilheyra þessum skólum.

Birt í Fréttir.