Öflugt þróunarstarf í Króki

Í nýrri Aðalnámskrá segir að leikskólastjóri eigi að vera í forystu um þróun metnaðarfulls leikskólastarfs og að kennarar eigi að vera leiðandi í mótun starfsins, fylgjast með nýjungum og miðla þekkingu. Eitt af aðalmarkmiðum Heilsuleikskólans Króks er að starfrækja skólastarf í stöðugri þróun og stuðla þannig að framförum og virku lærdómssamfélagi. Styrkleikar skólans er samheldni í starfsmannahópnum sem er samstíga um að starfrækja lærdóms- og gleðiríkt skólastarf í framþróun til hagsbóta fyrir skólasamfélagið í heild. Á síðasta skólaári hafa ýmis minni umbóta- og þróunarverkefni verið unnin eins og t.d. Bókaormar, efling útináms og námsefnis fyrir það, gildakennsla með  Engilráð, ráðgjafarhlutverk kennara eflt o.fl.. Skólinn sótti um tvo styrki til þróunarstarfs síðasta vetur og fékk þá báða og verður auk þeirra með önnur skólaþróunarverkefni í gangi þetta skólaár.

Skúlptúra

Sótt var um í Menningarráði Suðurnesja fyrir verkefninu Skúlptúra sem er samvinnuverkefni skólans og myndhöggvarans Önnu Sigríðar Sigurjónsdóttur og fékkst 250.000 kr. styrkur fyrir það. Markmið þess er að efla útinám og upplifun barna af listsköpun með því að skapa skúlptúrverk úr efniviði sem náttúran gefur. Börnin heimsækja Önnu Sigríði að heimili hennar og vinnustofu, þar sem þau fá tækifæri til að vinna með henni úti í náttúrunni og fá innsýn í hvernig listamaður starfar. Verkefnastjórar eru Salbjörg Júlíusdóttir leikskólakennari og Anna Sigríður Sigurjónsdóttir myndhöggvari.

„Snemma beygist krókurinn“

Þá sótti skólinn um styrk í Sprotasjóði leikskóla til verkefnisins „Snemma beygist krókurinn“. Úr stöðluðum kynjahlutverkum í kynjajafnrétti og fékkst styrkur upp á 1.500.000 kr. fyrir það. Verkefnisstjóri er Svandís Anna Sigurðardóttir kynjafræðingur. Í því verkefni verður unnið að því að samþætta jafnréttissjónarmiðið við alla starfsemi leikskólans ásamt sértækum aðgerðum um kynjajafnrétti. Markmiðið er að gera starfsfólk leikskólans betur í stakk búið til að greina kynjamismun í orðræðu, námsaðferðum og -umhverfi leikskólans til að nýta í uppeldi og menntun barnanna. Sú leikni sem börn öðlast í markvissri jafnréttiskennslu mun undirbúa þau fyrir virka þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi.

Heilsueflandi leikskóli

Skólinn bauð sig einnig fram til að taka þátt í þróun á verkefninu Heilsueflandi leikskóli hjá Landlæknisembættinu. Fjórir skólar taka þátt í verkefninu sem fer af stað í haust þar sem unnið verður með áhersluþætti, handbók og gátlista. Hver skóli fékk tvo áhersluþætti að vinna með og fékk skólinn okkar þættina starfsfólk og geðrækt (líðan). Verkefnisstjóri er Hulda Jóhannsdóttir leikskólastjóri.

Ný hugsun í átt að betri framtíð

Auk þessara verkefna er Krókur að vinna í samstarfi við skólaskrifstofu og aðra skóla í Grindavík að þróunarverkefninu Þróunarsveitarfélag – Ný hugsun í átt að betri framtíð með styrk frá Sprotasjóði. Markmið þess verkefnis er að allir skólar sveitarfélagsins vinni saman að innleiðingu nýrrar menntastefnu og aðalnámskráa. Í vetur var unnið að innleiðingu grunnþátta menntunar og á næsta skólaári er markmiðið að endurgera námskrár skólanna og innleiða nýtt mat á námi og velferð barna. Verkefnisstjóri er Inga María Guðmundsdóttir sálfræðingur skólaskrifstofu.

Starfsfólk horfir björtum augum fram á veginn með það leiðarljós að styðja við nám barnanna í gegnum leik á margvíslegan hátt. Markmiðið er að efla alhliða þroska barnanna, veita þeim hollt og hvetjandi uppeldisumhverfi og suðla að öryggi þeirra og vellíðan.

Birt í Fréttir, Fréttir og Kynningarefni.