Eftirtektarverður árangur læsis í heilsuleikskólanum Heiðarseli

Á leikskólanum Heiðarseli í Reykjanesbæ hefur verið lögð sérstök áhersla á læsi og lestur. Það hefur skilað eftirtektarverðum árangri, þar sem almenna reglan er að við útskrift úr leikskólanum geti meirihluti nemenda í skólahóp lesið einfaldan texta. Gylfi Jón Gylfason fræðslustjóri Reykjanesbæjar þakkar þennan árangur markvissri vinnu kennara  sem unnin er í góðri samvinnu við fjölskyldur barnanna.  Gylfi Jón segir að leikskólar í Reykjanesbæ, Garði og Sandgerði starfi eftir sameiginlegri framtíðarsýn þar sem lögð sé sérstök áhersla á læsi og stærðfræði frá fyrsta degi skólagöngu. Það skili sér í því að nemendur komi nú betur undirbúnir undir grunnskólagöngu en áður, og árangur nemenda á Heiðarseli sé gott dæmi um það..

Stjórnendanámskeið á Akranesi

Heilsuleikskólinn Garðasel á Akranesi stendur fyrir öflugu stjórnendanámskeiði föstudaginn 7. mars n.k. Leiðtogafærni – það er leiðin – er yfirheiti námskeiðsins og er ætlað skólastjórnendum og millistjórnendum þeirra. Fyrirlesari er Ragnheiður Aradóttir, öflugur Dale Cernige stjórnendaþjálfari og vottaður markþjálfi.

Stjórnendur heilsuleikskólanna eru hvattir til að líta yfir auglýsinguna, sem skólarnir hafa fengið senda  og skoða hvort hér sé ekki tækifæri til sóknar fyrir þá og skólann þeirra.

 

Gleðilegt nýtt ár

Við sendum gleðilegar nýárskveðjur til allra heilsuleikskólanna, starfsmanna þeirra og barna. Þökkum ánægjulegt samstarf á liðnu ári og hlökkum til þess að eiga öflugt og gefandi samstarf og samverustundir á nýju ári.

Minnt er á að síðasta dagsetning á sameiginlegum vinnufundi fulltrúa heilsuleikskólanna er föstudagurinn 17. janúar – nánari tímasetning kemur síðar.

 

Heilsuleikskólinn Andabær á Hvanneyri vígður

Síðastliðinn miðvikudag þann 11. desember sl.  var leikskólinn Andabær á Hvanneyri vígður formlega sem heilsuleikskóli. Andabær varð þar með 25. heilsuleikskólinn hér á landi.  Formleg úttekt var gerð á námskrá og áherslum hreyfingar, næringar og listsköpunar  í starfi skólans  og stóðst Andabær þá úttekt mjög vel.

Kristín Eiríksdóttir, formaður Samtaka heilsuleikskóla, færði Andabæ fána Heilsustefnunnar og flutt voru ávörp. Meðfylgjandi mynd tók Kristín Jónsdóttir þegar Valdís Magnúsdóttir leikskólastjóri dró fánann að húni.
Nýr heilsuleikskóli er boðinn velkominn í öflugan hóp okkar.

 

Heilsuleikskólinn Kór fagnar 5 ára heilsustefnuafmæli.

Þann 1. desember 2013 fagnaði Heilsuleikskólinn Kór 5 ára heilsustefnuafmælinu sínu. Leikskólinn er 7 og ½ árs og hóf strax starfsemi sína sem leikskóli á heilsubraut en fékk nafnið Heilsuleikskóli árið 2008 og hefur flaggað fánanum síðan. Leikskólinn er með aðaláherslu á hreyfingu, listir og hollt mataræði. Öll börn fara í hreyfisal og listasmiðju einu sinni í viku í 30 – 40 mínútur í senn en yfir sumartímann færist hreyfisalur og listasmiðja út og eru þá með útinám. Nánasta umhverfi er nýtt í útinámið og má þar helst nefna móann, hverfið og Magnúsarlund.

Á heilsustefnuafmælisdaginn var rugldagur í leik barnanna og var í boði að ganga frjálst á milli allra deilda og hreyfisals. Inni á deildunum var mjög fjölbreytt starf í gangi, má þar nefna völundarhús, dúkamálningu, dans, bríólest, litir, ljósaborð og margt fleira. Búið var að setja upp þrautabraut inni í hreyfisal og voru börnin mjög spennt yfir því að komast í hana. Dagurinn var mjög skemmtilegur og fjörugur.

 

 

 

 

Skólanámskrá Garðasels Akranesi komin út

Endurskoðun á skólanámskrá Garðasels á Akranesi er lokið og hefur námskráin verðið gefin út. Allir starfsmenn komu að þeirri endurskoðun og hefur sú vinna staðið frá því í ágúst 2011.

Á heimasíðu Garðasels http://www.gardasel.is/um-skolann/skolanamskra/  má skoða námskrána og einnig námsviðin fjögur í máli og myndum. Stuðst var við ljósmyndaskráningu við þá vinnu en markmið hennar var að tengja foreldrana betur við ný hugtök og hvað þau innibera í skólastarfinu.

Leikskólinn Andabær á Hvanneyri í úttekt

Leikskólinn Andabær á Hvanneyri óskaði eftir úttekt á skólastarfi sínu en leikskólinn hefur verið á heilsubraut. Skólastjórar í Garðaseli á Akranesi tóku að sér úttektina og hafa kallað eftir gögnum ; skólanámskrá, dagskipulagi, matseðlum og næringu , sérstökum upplýsingum um skipulag hreyfingar og myndir frá hreyfisal og búnaði. Mikill og góð gögn hafa borist og styttist í að það fjölgi um einn í heilsuleikskóla-samfélaginu.

Andabær er einnig Grænfána – skóli eins og sjá má á heimasíðu skólans  http://www.andabaer.borgarbyggd.is/

Garðasel á Akranesi komið í Comeniusarsamstarf

Heilsuleikskólinn Garðasel á Akranesi fékk styrk til þátttöku í tveggja ára skólasamstarfi á vegum Comeniusar. Verkefnið heitir My school is a goldmine og vefsíða verkefnisins er http://comenius2015.blogspot.com/ en þar má nálgast upplýsingar um verkefnið og skólana sem taka þátt. Við munum nota tækifærið og fræða samstarfsskóla okkar um Heilsustefnuna, markmið hennar og leiðir.

Þá hefur leikskólinn stofnað síðu á Facebook þar sem foreldrar geta tengst verkefninu og skólinn stýrir aðgangi með því að samþykkja vini. Inn á síðuna fara myndir, myndbönd og fréttir af verkefnavinnunni.

Eitt af því sem átti að vinna á fyrstu mánuðum verkefnisins er logó hvers skóla og var mælst til þess að börnin myndu vinna það. Logó Garðasels er tilbúið og hefur verið birt á síðunni.

 

Öflugt þróunarstarf í Króki

Í nýrri Aðalnámskrá segir að leikskólastjóri eigi að vera í forystu um þróun metnaðarfulls leikskólastarfs og að kennarar eigi að vera leiðandi í mótun starfsins, fylgjast með nýjungum og miðla þekkingu. Eitt af aðalmarkmiðum Heilsuleikskólans Króks er að starfrækja skólastarf í stöðugri þróun og stuðla þannig að framförum og virku lærdómssamfélagi. Styrkleikar skólans er samheldni í starfsmannahópnum sem er samstíga um að starfrækja lærdóms- og gleðiríkt skólastarf í framþróun til hagsbóta fyrir skólasamfélagið í heild. Á síðasta skólaári hafa ýmis minni umbóta- og þróunarverkefni verið unnin eins og t.d. Bókaormar, efling útináms og námsefnis fyrir það, gildakennsla með  Engilráð, ráðgjafarhlutverk kennara eflt o.fl.. Skólinn sótti um tvo styrki til þróunarstarfs síðasta vetur og fékk þá báða og verður auk þeirra með önnur skólaþróunarverkefni í gangi þetta skólaár.

Skúlptúra

Sótt var um í Menningarráði Suðurnesja fyrir verkefninu Skúlptúra sem er samvinnuverkefni skólans og myndhöggvarans Önnu Sigríðar Sigurjónsdóttur og fékkst 250.000 kr. styrkur fyrir það. Markmið þess er að efla útinám og upplifun barna af listsköpun með því að skapa skúlptúrverk úr efniviði sem náttúran gefur. Börnin heimsækja Önnu Sigríði að heimili hennar og vinnustofu, þar sem þau fá tækifæri til að vinna með henni úti í náttúrunni og fá innsýn í hvernig listamaður starfar. Verkefnastjórar eru Salbjörg Júlíusdóttir leikskólakennari og Anna Sigríður Sigurjónsdóttir myndhöggvari.

„Snemma beygist krókurinn“

Þá sótti skólinn um styrk í Sprotasjóði leikskóla til verkefnisins „Snemma beygist krókurinn“. Úr stöðluðum kynjahlutverkum í kynjajafnrétti og fékkst styrkur upp á 1.500.000 kr. fyrir það. Verkefnisstjóri er Svandís Anna Sigurðardóttir kynjafræðingur. Í því verkefni verður unnið að því að samþætta jafnréttissjónarmiðið við alla starfsemi leikskólans ásamt sértækum aðgerðum um kynjajafnrétti. Markmiðið er að gera starfsfólk leikskólans betur í stakk búið til að greina kynjamismun í orðræðu, námsaðferðum og -umhverfi leikskólans til að nýta í uppeldi og menntun barnanna. Sú leikni sem börn öðlast í markvissri jafnréttiskennslu mun undirbúa þau fyrir virka þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi.

Heilsueflandi leikskóli

Skólinn bauð sig einnig fram til að taka þátt í þróun á verkefninu Heilsueflandi leikskóli hjá Landlæknisembættinu. Fjórir skólar taka þátt í verkefninu sem fer af stað í haust þar sem unnið verður með áhersluþætti, handbók og gátlista. Hver skóli fékk tvo áhersluþætti að vinna með og fékk skólinn okkar þættina starfsfólk og geðrækt (líðan). Verkefnisstjóri er Hulda Jóhannsdóttir leikskólastjóri.

Ný hugsun í átt að betri framtíð

Auk þessara verkefna er Krókur að vinna í samstarfi við skólaskrifstofu og aðra skóla í Grindavík að þróunarverkefninu Þróunarsveitarfélag – Ný hugsun í átt að betri framtíð með styrk frá Sprotasjóði. Markmið þess verkefnis er að allir skólar sveitarfélagsins vinni saman að innleiðingu nýrrar menntastefnu og aðalnámskráa. Í vetur var unnið að innleiðingu grunnþátta menntunar og á næsta skólaári er markmiðið að endurgera námskrár skólanna og innleiða nýtt mat á námi og velferð barna. Verkefnisstjóri er Inga María Guðmundsdóttir sálfræðingur skólaskrifstofu.

Starfsfólk horfir björtum augum fram á veginn með það leiðarljós að styðja við nám barnanna í gegnum leik á margvíslegan hátt. Markmiðið er að efla alhliða þroska barnanna, veita þeim hollt og hvetjandi uppeldisumhverfi og suðla að öryggi þeirra og vellíðan.

Krókur fær grænfánann í þriðja sinn

Þann 19. júní fékk heilsuleikskólinn Krókur í Grindavík  Grænfánann afhentan í þriðja sinn. Gerður Magnúsdóttir frá Landvernd kom og afhenti  fánann og veitti skólanum alþjóðlega viðurkenningu fyrir góða frammistöðu í menntun til sjálfbærrar þróunar og fyrir að leggja sitt af mörkum til þess að efla og bæta umhverfismál innan skólans og í nærsamfélaginu. Með umhverfisstefnunni leikskólans er sýnt  gott fordæmi og börnunum kennt  að þau geta haft jákvæð áhrif á umhverfi sitt. Þannig má hafa áhrif á að komandi kynslóðir læri að umgangast náttúruna af virðingu. Mikilvægt er að börn upplifi náttúruna af eigin raun og læri að njóta hennar sér til yndisauka. Í leikskólanum er stuðlað að virðingu barnanna fyrir náttúrunni og náttúruvernd og þeim séð fyrir fjölbreyttum möguleikum á að kynnast henni, veðrinu og árstíðunum í fjölbreytileika sínum. Eftir að Grænfánanum var flaggað gengum við fylktu liði í kyrrðardal leikskólans þar sem var sungið, gerðar teygjuæfingar og fengið sér hressingu. Myndir

Grænfáninn í Króki