Gleðilegt nýtt ár

Við sendum gleðilegar nýárskveðjur til allra heilsuleikskólanna, starfsmanna þeirra og barna. Þökkum ánægjulegt samstarf á liðnu ári og hlökkum til þess að eiga öflugt og gefandi samstarf og samverustundir á nýju ári.

Minnt er á að síðasta dagsetning á sameiginlegum vinnufundi fulltrúa heilsuleikskólanna er föstudagurinn 17. janúar – nánari tímasetning kemur síðar.

 

Heilsuleikskólinn Andabær á Hvanneyri vígður

Síðastliðinn miðvikudag þann 11. desember sl.  var leikskólinn Andabær á Hvanneyri vígður formlega sem heilsuleikskóli. Andabær varð þar með 25. heilsuleikskólinn hér á landi.  Formleg úttekt var gerð á námskrá og áherslum hreyfingar, næringar og listsköpunar  í starfi skólans  og stóðst Andabær þá úttekt mjög vel.

Kristín Eiríksdóttir, formaður Samtaka heilsuleikskóla, færði Andabæ fána Heilsustefnunnar og flutt voru ávörp. Meðfylgjandi mynd tók Kristín Jónsdóttir þegar Valdís Magnúsdóttir leikskólastjóri dró fánann að húni.
Nýr heilsuleikskóli er boðinn velkominn í öflugan hóp okkar.

 

Heilsuleikskólinn Kór fagnar 5 ára heilsustefnuafmæli.

Þann 1. desember 2013 fagnaði Heilsuleikskólinn Kór 5 ára heilsustefnuafmælinu sínu. Leikskólinn er 7 og ½ árs og hóf strax starfsemi sína sem leikskóli á heilsubraut en fékk nafnið Heilsuleikskóli árið 2008 og hefur flaggað fánanum síðan. Leikskólinn er með aðaláherslu á hreyfingu, listir og hollt mataræði. Öll börn fara í hreyfisal og listasmiðju einu sinni í viku í 30 – 40 mínútur í senn en yfir sumartímann færist hreyfisalur og listasmiðja út og eru þá með útinám. Nánasta umhverfi er nýtt í útinámið og má þar helst nefna móann, hverfið og Magnúsarlund.

Á heilsustefnuafmælisdaginn var rugldagur í leik barnanna og var í boði að ganga frjálst á milli allra deilda og hreyfisals. Inni á deildunum var mjög fjölbreytt starf í gangi, má þar nefna völundarhús, dúkamálningu, dans, bríólest, litir, ljósaborð og margt fleira. Búið var að setja upp þrautabraut inni í hreyfisal og voru börnin mjög spennt yfir því að komast í hana. Dagurinn var mjög skemmtilegur og fjörugur.

 

 

 

 

25. heilsuleikskólinn vígður 11. desember

Þann 11. desember verður leikskólinn Andabær á Hvanneyri vígður sem heilsuleikskóli. Andabær verður 25. heilsuleiksólinn sem er talsverður áfangi fyrir Samtök heilsuleikskóla og alla sem starfa að heilsustefnunni. Kristín Eiríksdóttir, formaður Samtaka Heilsuleikskóla, mun leiða vígsluathöfnina en hún mun hefjast kl 14:30.

Leikskólinn Laufás stendur fyrir fjölþjóðlegum degi

Leikskólinn Laufás á afmæli í dag. 26 ár eru síðan hann var tekinn í notkun en hann er eini leikskólinn sem starfræktur er á Þingeyri. Árið 2008 fékk hann vígslu sem heilsuleikskóli og hefur verið virkur þátttakandi í Samtökum Heilsuleikskóla síðan þá.

Í tilefni afmælisins verður „fjölþjóðlegur dagur“ og opið hús. Slegið verður upp veislu þar sem foreldrar af ýmsum þjóðernum eru hvattir til að koma með mat í skólann, eitthvað sem er þjóðlegt þannig að fjölbreytileikinn verði sem mestur. Veislan hefst klukkan 9:30 og er opið fyrir alla (foreldra, afa og ömmur, vini og vandamenn).

Alþjóðlegi bangsadagurinn

Þann 27. október á hverju ári er haldið upp á Alþjóðlega bangsadaginn. Í heilsuleikskólunum Ársól, Háaleiti og Kór veður haldið upp á daginn og börn hvött til að taka með sér bangsa í skólann.

Bókasöfn á Norðurlöndum hafa haldið Bangsadaginn hátíðlegan síðan 1998. Hugmyndin var að tengja saman bangsa og bókasöfn því bangsar eru söguhetjur margra vinsælla barnabóka. Auk þess eru bangsar eitt vinsælasta leikfang sem framleitt hefur verið og flestir eiga góðar minningar tengdar uppáhalds bangsanum sínum. Bangsar eru líka tákn öryggis og vellíðunar á sama hátt og bækur og bókasöfn.

Dagurinn sem bangsavinir hafa valið sér er 27. október, afmælisdagur Theodore (Teddy) Roosevelt fyrrverandi Bandaríkjaforseta. Roosevelt var mikill skotveiðimaður og sagan segir að eitt sinn þegar hann var á bjarnarveiðum hafi hann vorkennt litlum, varnarlausum bjarnarhúni og sleppt honum lausum. Washington Post birti skopmynd af þessu atviki sem vakti mikla athygli. Búðareigandi einn í Brooklyn, New York varð svo hrifinn af þessari sögu að hann bjó til leikfangabangsa sem hann seldi sem „Bangsann hans Teddy“ (Teddy´s Bear). Það má segja að þetta hafi verið upphaf sigurgöng leikfangabangsans sem er orðinn vinsæll félagi barna um allan heim.

Skólanámskrá Garðasels Akranesi komin út

Endurskoðun á skólanámskrá Garðasels á Akranesi er lokið og hefur námskráin verðið gefin út. Allir starfsmenn komu að þeirri endurskoðun og hefur sú vinna staðið frá því í ágúst 2011.

Á heimasíðu Garðasels http://www.gardasel.is/um-skolann/skolanamskra/  má skoða námskrána og einnig námsviðin fjögur í máli og myndum. Stuðst var við ljósmyndaskráningu við þá vinnu en markmið hennar var að tengja foreldrana betur við ný hugtök og hvað þau innibera í skólastarfinu.

Leikskólinn Andabær á Hvanneyri í úttekt

Leikskólinn Andabær á Hvanneyri óskaði eftir úttekt á skólastarfi sínu en leikskólinn hefur verið á heilsubraut. Skólastjórar í Garðaseli á Akranesi tóku að sér úttektina og hafa kallað eftir gögnum ; skólanámskrá, dagskipulagi, matseðlum og næringu , sérstökum upplýsingum um skipulag hreyfingar og myndir frá hreyfisal og búnaði. Mikill og góð gögn hafa borist og styttist í að það fjölgi um einn í heilsuleikskóla-samfélaginu.

Andabær er einnig Grænfána – skóli eins og sjá má á heimasíðu skólans  http://www.andabaer.borgarbyggd.is/

Garðasel á Akranesi komið í Comeniusarsamstarf

Heilsuleikskólinn Garðasel á Akranesi fékk styrk til þátttöku í tveggja ára skólasamstarfi á vegum Comeniusar. Verkefnið heitir My school is a goldmine og vefsíða verkefnisins er http://comenius2015.blogspot.com/ en þar má nálgast upplýsingar um verkefnið og skólana sem taka þátt. Við munum nota tækifærið og fræða samstarfsskóla okkar um Heilsustefnuna, markmið hennar og leiðir.

Þá hefur leikskólinn stofnað síðu á Facebook þar sem foreldrar geta tengst verkefninu og skólinn stýrir aðgangi með því að samþykkja vini. Inn á síðuna fara myndir, myndbönd og fréttir af verkefnavinnunni.

Eitt af því sem átti að vinna á fyrstu mánuðum verkefnisins er logó hvers skóla og var mælst til þess að börnin myndu vinna það. Logó Garðasels er tilbúið og hefur verið birt á síðunni.