Fífusalir taka þátt í nýju NordPlus verkefni

Í síðustu viku fóru Guðbjörg Lilja Svansdóttir og Carmen Valencia Palmero, deildarstjórar í Heilsuleikskólanum Fífusölum, til Stokkhólms til að vinna að nýju NordPlus-verkefni. Verkefnið ber yfirskriftina „Healthy and happy“ og er samstarfsverkefni Svíþjóðar, Finnlands og Íslands. Markmið verkefnisins eru:

– Að fræðast um heilbrigðan lífsstíl

– Að hvetja nemendur og kennara til að hreyfa sig og lifa heilbrigðu lífi

– Að fræðast um íþróttir og mat í samstarfslöndunum

– Að bæta enskukunnáttu

– Að fræðast um Norður-Evrópu

– Að skrásetja starfið þannig að úr verði hugmyndabanki fyrir alla samstarfsaðila

– Að fræðast um skóla, kennslu og menntakerfi í samstarfslöndunum

Endanleg útkoma verkefnisins er bloggsíða sem mun nýtast sem hugmyndabanki fyrir fræðslu um hreyfingu og heilsu. Hver skóli setur efni inn á síðuna amk tvisvar í mánuði og segir frá starfsemi sinni. Þannig geta skólarnir fylgst með starfsemi hvers annars og fengið innblástur og nýjar hugmyndir sem nýtast í kennslunni. Bloggsíðan er ennþá í mótun en hægt er að skoða hana hér:

http://nordplushealth.wordpress.com/

Heilsuvikur framundan í leikskólanum Kór

Dagana 23. sept. – 4. okt. verða Heilsuvikur í leikskólanum Kór í Kópavogi. Verða börnin sérstaklega frædd um vatnið og hvað er hollt eða óhollt fyrir þau. Á þessu tímabili verður þeim boðið að taka með sér ávöxt eða grænmeti í leikskólann, eitthvað sem þeim finnst gott eða eitthvað sem þau vilja fræðast um. Þessar vikur munu börnin fá að kynnast, fræðast, velta fyrir sér og smakka þá ávexti og grænmeti sem komið verður með. Einnig verður mikil áhersla lögð á að fræða börnin um hreyfingu, hvar og hvernig maður hreyfir sig, farið verður í vettvangsferðir, útileiki og fleira í þeim dúr.

Öflugt þróunarstarf í Króki

Í nýrri Aðalnámskrá segir að leikskólastjóri eigi að vera í forystu um þróun metnaðarfulls leikskólastarfs og að kennarar eigi að vera leiðandi í mótun starfsins, fylgjast með nýjungum og miðla þekkingu. Eitt af aðalmarkmiðum Heilsuleikskólans Króks er að starfrækja skólastarf í stöðugri þróun og stuðla þannig að framförum og virku lærdómssamfélagi. Styrkleikar skólans er samheldni í starfsmannahópnum sem er samstíga um að starfrækja lærdóms- og gleðiríkt skólastarf í framþróun til hagsbóta fyrir skólasamfélagið í heild. Á síðasta skólaári hafa ýmis minni umbóta- og þróunarverkefni verið unnin eins og t.d. Bókaormar, efling útináms og námsefnis fyrir það, gildakennsla með  Engilráð, ráðgjafarhlutverk kennara eflt o.fl.. Skólinn sótti um tvo styrki til þróunarstarfs síðasta vetur og fékk þá báða og verður auk þeirra með önnur skólaþróunarverkefni í gangi þetta skólaár.

Skúlptúra

Sótt var um í Menningarráði Suðurnesja fyrir verkefninu Skúlptúra sem er samvinnuverkefni skólans og myndhöggvarans Önnu Sigríðar Sigurjónsdóttur og fékkst 250.000 kr. styrkur fyrir það. Markmið þess er að efla útinám og upplifun barna af listsköpun með því að skapa skúlptúrverk úr efniviði sem náttúran gefur. Börnin heimsækja Önnu Sigríði að heimili hennar og vinnustofu, þar sem þau fá tækifæri til að vinna með henni úti í náttúrunni og fá innsýn í hvernig listamaður starfar. Verkefnastjórar eru Salbjörg Júlíusdóttir leikskólakennari og Anna Sigríður Sigurjónsdóttir myndhöggvari.

„Snemma beygist krókurinn“

Þá sótti skólinn um styrk í Sprotasjóði leikskóla til verkefnisins „Snemma beygist krókurinn“. Úr stöðluðum kynjahlutverkum í kynjajafnrétti og fékkst styrkur upp á 1.500.000 kr. fyrir það. Verkefnisstjóri er Svandís Anna Sigurðardóttir kynjafræðingur. Í því verkefni verður unnið að því að samþætta jafnréttissjónarmiðið við alla starfsemi leikskólans ásamt sértækum aðgerðum um kynjajafnrétti. Markmiðið er að gera starfsfólk leikskólans betur í stakk búið til að greina kynjamismun í orðræðu, námsaðferðum og -umhverfi leikskólans til að nýta í uppeldi og menntun barnanna. Sú leikni sem börn öðlast í markvissri jafnréttiskennslu mun undirbúa þau fyrir virka þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi.

Heilsueflandi leikskóli

Skólinn bauð sig einnig fram til að taka þátt í þróun á verkefninu Heilsueflandi leikskóli hjá Landlæknisembættinu. Fjórir skólar taka þátt í verkefninu sem fer af stað í haust þar sem unnið verður með áhersluþætti, handbók og gátlista. Hver skóli fékk tvo áhersluþætti að vinna með og fékk skólinn okkar þættina starfsfólk og geðrækt (líðan). Verkefnisstjóri er Hulda Jóhannsdóttir leikskólastjóri.

Ný hugsun í átt að betri framtíð

Auk þessara verkefna er Krókur að vinna í samstarfi við skólaskrifstofu og aðra skóla í Grindavík að þróunarverkefninu Þróunarsveitarfélag – Ný hugsun í átt að betri framtíð með styrk frá Sprotasjóði. Markmið þess verkefnis er að allir skólar sveitarfélagsins vinni saman að innleiðingu nýrrar menntastefnu og aðalnámskráa. Í vetur var unnið að innleiðingu grunnþátta menntunar og á næsta skólaári er markmiðið að endurgera námskrár skólanna og innleiða nýtt mat á námi og velferð barna. Verkefnisstjóri er Inga María Guðmundsdóttir sálfræðingur skólaskrifstofu.

Starfsfólk horfir björtum augum fram á veginn með það leiðarljós að styðja við nám barnanna í gegnum leik á margvíslegan hátt. Markmiðið er að efla alhliða þroska barnanna, veita þeim hollt og hvetjandi uppeldisumhverfi og suðla að öryggi þeirra og vellíðan.

Háaleiti 5 ára

Leikskólinn Háaleiti í Reykjanesbæ fagnaði 5 ára afmæli sínu í gær, 2. september. Í tilefni dagsins var haldið ball í hreyfisalnum þar sem nemendur og kennarar skólans dönsuðu við frábæra tónlist. Eftir ballið var svo boðið upp á skúffuköku. Háaleiti hefur verið heilsuleiksóli frá árinu 2010 og er rekinn af Skólum ehf.

Krókur fær grænfánann í þriðja sinn

Þann 19. júní fékk heilsuleikskólinn Krókur í Grindavík  Grænfánann afhentan í þriðja sinn. Gerður Magnúsdóttir frá Landvernd kom og afhenti  fánann og veitti skólanum alþjóðlega viðurkenningu fyrir góða frammistöðu í menntun til sjálfbærrar þróunar og fyrir að leggja sitt af mörkum til þess að efla og bæta umhverfismál innan skólans og í nærsamfélaginu. Með umhverfisstefnunni leikskólans er sýnt  gott fordæmi og börnunum kennt  að þau geta haft jákvæð áhrif á umhverfi sitt. Þannig má hafa áhrif á að komandi kynslóðir læri að umgangast náttúruna af virðingu. Mikilvægt er að börn upplifi náttúruna af eigin raun og læri að njóta hennar sér til yndisauka. Í leikskólanum er stuðlað að virðingu barnanna fyrir náttúrunni og náttúruvernd og þeim séð fyrir fjölbreyttum möguleikum á að kynnast henni, veðrinu og árstíðunum í fjölbreytileika sínum. Eftir að Grænfánanum var flaggað gengum við fylktu liði í kyrrðardal leikskólans þar sem var sungið, gerðar teygjuæfingar og fengið sér hressingu. Myndir

Grænfáninn í Króki

 

Ungbarnaleikskólinn Ársól verður heilsuleikskóli

Þann 13. júní sl. fékk ungbarnaleikskólinn Ársól viðurkenningu sem heilsuleikskóli. Ársól er 24. leikskólinn sem fær þessa viðurkenningu en jafnframt fyrsti ungbarnaleikskólinn á Íslandi. Nýr menntamála-ráðherra, Illugi Gunnarsson, flutti ávarp og Kristín Eiríksdóttir, formaður Samtaka heilsuleikskóla, afhenti Berglindi Grétarsdóttur skólastjóra Heilsufánann og viðurkenningarskjal. Eftir vígsluna var gestum boðið upp á léttar veitingar í anda heilsustefnunnar.

Ársól er tveggja deilda leikskóli fyrir börn á aldrinum 9 mánaða til 3ja ára, sem starfar í Reykjavík á vegum Skóla ehf. Heimasíða Ársólar

Heilsuleikskólinn Garðasel á Akranesi valin Stofnun ársins 2013

Heilsuleikskólinn Garðasel á Akranesi var annað árið í röð valin Stofnun ársins 2013 – í flokki minni stofnana ( 49 starfsmenn og færri). Leikskólinn hlaut einnig þessa viðurkenningu árið 2012

Leikskólinn og starfsfólk hans skapa þessa góðu niðurstöðu þar sem viðhorf, sem byggja á virðingu og umburðarlyndi barna og fullorðinna, eru leiðarljós í daglegu starfi og samskiptum.

Niðurstöður úr könnuninni um valið á Stofnun ársins – Borg og bær 2013 voru kynntar, föstudaginn 24. maí. St.Rv. velur „Stofnun ársins – Borg og Bær“ í annað sinn. Stærsti hópur félagsmanna St.Rv. starfar hjá Reykjavíkurborg en auk þess starfa félagsmenn hjá fyrirtækjum Reykjavíkurborgar, Akraneskaupstað, Seltjarnarneskaupstað,  ríki og fleirum.

Starfsmannafélag Akraneskaupastaðar er hluti af St.Rv og taka félagsmenn því þátt í þessari könnun sem er samstarfsverkefni VR, St.Rv og STFR og um leið stærsta vinnustaðakönnun sem framkvæmd er hér á landi. Í raun er það starfsfólk sem er að dæma gæði vinnustaða sinna út frá átta grunnþáttum. Spurt er um trúverðugleika stjórnenda, starfsanda á vinnustað, ánægju með launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleika í vinnu, sjálfstæði í starfi, ímynd stofnunar/vinnustaðar og ánægju og stolt af að vera starfsmaður á viðkomandi vinnustað. Einkunn er gefin fyrir hvern þátt frá einum og upp í fimm og saman mynda þær svo heildareinkunn

 

Alþjóðadagur hreyfingar í Króki

Alþjóðadagur hreyfingar er föstudaginn 10. maí.  Árlega hvetur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin aðildarþjóðir sínar til að halda alþjóðadag hreyfingar hátíðlegan. Tilgangur dagsins er að minna á lykilhlutverk daglegrar hreyfingar fyrir heilsu og vellíðan fólks á öllum aldri.

Í heilsuleikskólanum Króki var ákveðið að í tilefni dagsins yrði hreyfingin ofarlega á baugi þennan dag  og  öðrum í samfélaginu boðið að hreyfa sig með . Leikskólinn bauð upp á teygjuæfingar með starfsfólki bæjarskrifstofunnar, tók þátt í íþróttatíma með grunnskólabörnum, dansaði með starfsfólki verslunarmiðstöðvarinnar, gerði æfingar með starfsfólki og viðskiptavinum Landsbankans og æfðum pútt  á púttvellinum með eldri borgurum í Miðgarði. Starfsfólk leikskólans tekur þátt í átakinu Hjólað í vinnuna.

Fífusalir í Kópavogi orðinn heilsuleikskóli

Miðvikudaginn 8. maí 2013 bættist leikskólinn Fífusalir í Kópavogi í hóp heilsuleikskóla og fékk  afhentan heilsufánann. Heilsuleikskólinn Fífusalir er þar með orðinn aðili að Samtökum Heilsuleikskóla og hefur uppfyllt markmið og viðmið heilsustefnunnar í leik og starfi. Athöfnin fór fram í leikskólanum kl 14:30 þennan dag og var boðið upp á skemmtiatriði og heilsusamlegar veitingar. Fífusali bjóðum við velkominn í hóp heilsuleikskólanna.