Garðasel verður heilsuleikskóli

Föstudaginn 5. október var leikskólinn Garðasel í Reykjanesbæ vígður sem heilsuleikskóli og er þar með orðinn hluti af samfélagi Samtaka heilsuleikskóla um allt land. Kristín Eiríksdóttir, formaður SHL, afhenti Ingibjörgu Guðjónsdóttur, leikskólastjóra Garðasels, fána Heilsustefnunnar og viðurkenningarskjal því til staðfestingar. Fullt var út úr dyrum og mætti m.a. bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Árni Sigfússon, og var hann fenginn til að halda á heilsufánanun á meðan Kristín útskýrði merkingu hans. Þetta má allt sjá í myndbandinu hér að ofan.

 

Urðarhóll fær Grænfánann

Föstudaginn 19. október mun Gerður Magnúsdóttir fulltrúi Landverndar afhenda Heilsuleikskólanum Urðarhóli Grænfánann. Boðið verður upp á heitt kakó og kleinur á milli kl 8:30 og 9:00.

Grænfáninn er umhverfismerki sem nýtur virðingar víða í Evrópu sem tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum. Það sem af er árinu 2008 hafa 38 skólar fengið náð fyrir augum stýrihóps Landverndar um Grænfána og hafa fengið fána í vor eða fá hann í upphafi skólaárs í haust. Þetta eru 15 leikskólar, 22 grunnskólar og einn framhaldsskóli. 25 þessara skóla eru nú að fá sinn fyrsta fána en hinir að fá fána í annað, þriðja eða jafnvel fjórða skipti.

Kristín kosin formaður

Aðalfundur Samtaka heilsuleikskóla var haldinn á Akureyri föstudaginn 16. mars sl. Byrjað var á að fara í heimsókn í Heilsuleikskólann Krógaból þar sem Anna R. Árnadóttir leikskólastjóri og Jórunn Jóhannesdóttir aðstoðarleikskólastjóri tóku á móti gestum. Síðan tóku við stíf fundarhöld fram eftir degi í Lions-sal Akureyrar.

Í upphafi fundarins var Unnar Stefánsdóttur minnst með einnar mínútu þögn. Að því loknu hófust venjuleg aðalfundarstörf og var Kristín Eiríksdóttir, leikskólastjóri Árbæjar á Selfossi, kosin formaður samtakanna og Sigrún Hulda Jónsdóttir, leikskólastjóri Urðarhóls í Kópavogi, varaformaður. Í þakkarræðu sinni lýsti Kristín yfir tilhlökkun um að vinna að heilsustefnunni í framtíðinni.

Miklar umræður urðu á fundinum um Heilsubók ungbarna sem samtökin vinna að. Til máls tóku Kolbrún Guðmundsdóttir, Hulda Jóhannsdóttir, Berglind Grétarsdóttir, Ingunn Sveinsdóttir, Oddný Baldvinsdóttir og Sigrún Hulda Jónsdóttir. Fram kom gagnrýni á breytta hugtakanotkun í bókinni sem er í ósamræmi við hugtök heilsustefnunnar og Heilsubókar barnsins, lengd bókarinnar, hversu ítarleg hún væri og að málþroska væri bætt við. Sigrún Hulda Jónsdóttir þakkaði fundarmönnum fyrir góðar ábendingar og sagði að þær myndu nýtast vel í vinnunni sem væri framundan.

Að loknum aðalfundi hélt Díana Gunnarsdóttir heilsusálfræðingur fyrirlestur um heilsu og líðan í dagsins önn. Mikil ánægja var með fyrirlesturinn og að honum loknum héldu fundargestir endurnærðir til síns heima.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Skólar ehf með 5 leikskóla og 130 starfsmenn

Guðmundur Pétursson, framkvæmdastjóri Skóla ehf, segir í viðtali við Víkurfréttir að fyrirtækið muni halda áfram að vinna eftir heilsustefnu Unnar Stefánsdóttur þrátt fyrir að Unnur sé fallin frá. Ólöf Kristín Sívertsen hefur tekið við keflinu af Unni og mun hún, ásamt öðru fagfólki Skóla, vinna ötullega að þeirri stefnu fyrirtækisins að auka veg heilsustefnunnar og fjölga heilsuskólum á Íslandi.

Viðtal við Guðmund Pétursson

Heilsuskokk Garðasels

Í gær var hið árlega heilsuskokk leikskólans Garðasels en það er hluti af leiðum leikskólans í hreyfingu þar sem markmiðið er að auka gleði og vellíðan allra sem taka þátt. Farið var á Jaðarsbakkasvæðið á Akranesi og hlaupið hringinn í kringum grasvöllinn. Sumir hlupu nokkra hringi á meðan aðrir létu sér nægja að fara einn. Allir fengu verðlaunapening fyrir afrekið og ekki annað að sjá en börnin hafi verið göð með „Sollu stirðu-peninginn“ sem þau fengu í lokin.

Andlát: Unnur Stefánsdóttir

Mánudaginn 8. ágúst 2011 lést formaður Samtaka heilsuleikskóla Unnur Stefánsdóttir. Unnur verður jarðsungin frá Hallgrímskirkju föstudaginn 19. ágúst kl. 13.

Við hjá Heilsustefnunni vottum aðstandendum Unnar samúð okkar. Unnur var kraftmikill leiðtogi og frumkvöðull. Hún var upphafsmaður Heilsustefnunnar og hefur sú stefna vaxið og dafnað undir hennar stjórn. Við munum sakna góðs félaga, frábærrar samstarfskonu og sterks leiðtoga

Íþróttadagur á Króki

Íþróttadagur Króks var haldinn hátíðlegur þann 15. júní. Í tilefni dagsins voru vígð ný vesti sem leikskólinn fékk frá TM.

Dagurinn byrjaði á hinu svokallaða „Krókshlaupi“, hlaupið var hringinn framhjá Nettó og verslunarmiðstöðinni og að leikskólanum aftur. Þegar komið var í leikskólann var boðið upp á ávexti og síðan var farið í leiki, í boði var til dæmis að sulla í sullukari, spila körfubolta, mála og margt fleira.

Í hádeginu voru grillaðir hamborgarar, boðið upp á grænmeti með og djús og vatn að drekka. Eftir hádegi fóru yngri börnin inn að hvíla sig og eldri fóru í sögustund. Dagurinn heppnaðist einstaklega vel og tóku krakkar í Vinnuskóla Grindavíkurbæjar þátt í honum og eiga þau hrós skilið.

 

Holtakot vígður

Vígsla á heilsuleikskólanum Holtakoti á Álftanesi fór fram fimmtudaginn 28.apríl á 5 ára afmæli skólans. Dagurinn var þannig að athöfnin byrjaði klukkan 9.00 með því að elstu börn skólans sungu 3 lög fyrir gesti. Síðan sagði Ragnhildur Skúladóttir leikskólastjóri frá sögu skólans, vinnu starfsfólks og áherslum frá upphafi og hvernig leikskólinn þróaðist út í að verða Heilsuskóli. Lagði hún áherslu á hvað Heilsubók barnsins væri mikið gull þar sem hún rammar inn faglegt starf leikskólans og er mikil og góð gjöf til foreldra að leikskólagöngu lokinni.

Síðan hélt formaður Samtaka Heilsuleikskóla og móðir stefnunnar Unnur Stefánsdóttir ræðu, þar sem hún sagði frá upphafi stefnunnar og áherslum, auk þess að segja sögu Holtakots í að verða Heilsuskóli. Síðan afhenti hún skjal sem vottar að Holtakot sé orðinn Heilsuleikskóli og fánann.

Eftir það var fánanum flaggað, leikskólastjóri og börn úr Krakkakoti komu og færðu Holtakoti gjöf og héldu smá ræðu, bæjarstjórnin kom og hélt smá ræðu einnig og færði leikskólanum blómvönd og er mikil ánægja hjá þeim að skólinn hafi tekið þetta skref.

Að ræðuhöldum loknum sungu gestir afmælissöng fyrir leikskólann og svo fengu sér allir veitingar sem voru í boði. Það var vel mætt á athöfnina og mikil gleði og ánægja ríkti í starfsmannahópnum með þennan áfanga og er Holtakot ákaflega stolt að tilheyra þessum skólum.

Aðalfundur Samtaka Heilsuleikskóla 2011

Aðalfundur Samtaka Heilsuleikskóla verður haldinn fimmtudaginn 31. mars 2011 á Selfossi. Dagskráin er sem hér segir:

 

Kl. 11:00 —12:00

Heimsókn í Heilsuleikskólann Árbæ á Selfossi

Kl. 12:00 – 12:45

Hádegisverður í Hótel Selfoss. Kjúklingasalat á kr. 1950 pr. mann.

Hver og einn þátttakandi greiðir fyrir sig.

Kl. 12:45-15:00

Aðalfundur Samtaka Heilsuleikskóla haldinn í Hótel Selfoss

-Skýrsla stjórnar

-Stjórn leggur fram endurskoðaða reikninga samtakanna

-Umræður um skýrslu og reikninga

-Lagabreytingar

-Kosning meðstjórnanda og varamanns

-Kosning tveggja skoðunarmanna

-Önnur mál:

Heilsubók ungbarna

Námskeið í haust

Umsókn úr forvarnarsjóði

 

Vinsamlegast tilkynnið þátttöku til Kristínar Eiríksdóttur á kristin@arborg.is  fyrir þriðjudaginn  29 mars nk.

Heilsukveðjur

Stjórn Samtaka Heilsuleikskóla