Fífusalir í Kópavogi orðinn heilsuleikskóli

Miðvikudaginn 8. maí 2013 bættist leikskólinn Fífusalir í Kópavogi í hóp heilsuleikskóla og fékk  afhentan heilsufánann. Heilsuleikskólinn Fífusalir er þar með orðinn aðili að Samtökum Heilsuleikskóla og hefur uppfyllt markmið og viðmið heilsustefnunnar í leik og starfi. Athöfnin fór fram í leikskólanum kl 14:30 þennan dag og var boðið upp á skemmtiatriði og heilsusamlegar veitingar. Fífusali bjóðum við velkominn í hóp heilsuleikskólanna.

 

Góðar niðurstöður úr viðhorfskönnun foreldra í heilsuleikskólanum Bæjarbóli

Foreldrakönnun er fastur liður í innra mati heilsuleikskólans Bæjarbóls í Garðabæ  og þetta árið voru foreldrar spurðir um samskipti, umönnun og upplýsingagjöf en það er samkvæmt matsáætlun  leikskólans. Í 18. gr. laga um leikskóla nr. 90/2008 er kveðið á um að hver leikskóli skuli meta með kerfisbundnum hætti árangur og gæði skólastarfsins. Matið skal fara fram með fjölbreyttum hætti og skulu starfsfólk, foreldrar, börn og foreldraráð taka þátt í því eftir því sem við á. Könnunin var send foreldrum rafrænt eftir foreldasamtöl í mars og voru niðurstöðurnar greindar og ræddar á starfsmannfundi. Leikskólinn er  ánægður  með niðurstöðurnar en þær eru  góð endurgjöf fyrir starfsfólk leikskólans. Niðurstöðurnar má  á heimasíðu leikskólans http://www.baejarbol.is/frett?NewsID=16071

Þemavinnan Álfar og tröll í heilsuleikskólanum Króki

Þemavinna heilsuleikskólans Króks  í vor hefur verið að vinna með álfa og tröll . Í listasmiðju hafa börnin verið  að hlusta á ýmsar álfa- og tröllasögur og skoða myndir af tröllum. Þau hafa  síðan unnið myndverk út frá sögunum og búið til álfa, lukkutröll og tröllapotta. Börnin hafa farið í vettvangsferðir út í hraun og fundið álfasteina. Þar hafa  þau lagt við hlustir til að athuga hvort þau heyri í álfum og töldu sig hafa  heyrt eitthvað. Einnig hafa þau verið að byggja álfahallir úr grjóti, spýtum og  öðru smálegu sem þau hafa fundið í umhverfinu. Í listasmiðju er lögð mikil  áhersla á ferlið en minni áhersla á útkomuna. Þar eru börnin að þjálfa  fínhreyfingar (t.d. að beita blýanti og skærum rétt), læra mismunandi aðferðir  og hugtök og æfa samvinnu. Skapandi vinna veitir börnum einnig vettvang til að  öðlast reynslu við að rannsaka umheiminn og með þeim hætti auka skynjun og næmi  fyrir umhverfinu. Í yfirmarkmiðum Heilsustefnunnar kemur fram að stefna skuli  af því að auka gleði og vellíðan.  Í  listsköpun hefur barnið vettvang til að tjá tilfinningar sínar og upplifun á  umheiminum, frjáls og óheft tjáning eykur líkurnar á að einstaklingi líði vel.

Sjá frekari frétt og myndir á heimasíðu leikskólans http://www.leikskolinn.is/krokur/

Velheppnaður aðalfundur

Aðalfundur Samtaka Heilsuleikskóla var haldinn mánudaginn 18. mars sl. og var góð mæting frá heilsuleikskólunum. Heilsuleikskólarnir eru orðnir 21 og þrír leikskólar eru á heilsubraut. Þessi fjölgun gerir það að verkum að samræður verða oft líflegar og hugmyndir um eflingu heilsustefnunnar verða fleiri.

Formaður Samtaka Heilsuleikskóla, Kristín Eiríksdóttir, fór yfir starfið í ársskýrslu og .Anna Árnadóttir, gjaldkeri, gerði grein fyrir ársreikningum. Báðar þessar skýrslur voru samþykktar samhljóða.

Stjórn samtakanna gaf kost á sér til áframhaldandi setu og mun því sitja áfram fram að  aðalfundi 2014. Rætt var um mikilvægi þess að fleiri kæmu að starfsemi samtakanna og voru félgasmenn hvattir til að íhuga stjórnarsetu á næsta ári.

Fundargerð aðalfundar hefur ekki borist enn en verður sett hér inn um leið og hún er tilbúin. Myndir frá aðalfundir eru komnar í myndamöppu.

Anna Árnadóttir, gjaldkeri, gerir grein fyrir ársreikningum

 

Fjölskylduhátíð og 12 ára afmæli Króks

Miðvikudaginn 6. febrúar verður haldið upp á 12 ára afmæli Heilsuleikskólans Króks í Grindavík. Í leiðinni verður haldið upp á Dag leikskólans og slegið upp veglegri fjölskylduhátíð. Börnin bjóða fjölskyldum sínum (mömmu, pabba, systkinum, afa, ömmu eða örðum sem þau óska) til veislu kl 9:30-11:00. Boðið verður upp á leik, samveru og veitingar þar sem foreldrar og starfsfólk leiða saman hesta sína. Slóðin á heimasíðu Króks er hér.