Dagana 23. sept. – 4. okt. verða Heilsuvikur í leikskólanum Kór í Kópavogi. Verða börnin sérstaklega frædd um vatnið og hvað er hollt eða óhollt fyrir þau. Á þessu tímabili verður þeim boðið að taka með sér ávöxt eða grænmeti í leikskólann, eitthvað sem þeim finnst gott eða eitthvað sem þau vilja fræðast um. Þessar vikur munu börnin fá að kynnast, fræðast, velta fyrir sér og smakka þá ávexti og grænmeti sem komið verður með. Einnig verður mikil áhersla lögð á að fræða börnin um hreyfingu, hvar og hvernig maður hreyfir sig, farið verður í vettvangsferðir, útileiki og fleira í þeim dúr.