Viðmið heilsuleikskóla

1. Heildarsýn

Í markmiðum skólans skal stuðla að andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan barna með því að efla líkams-, hreyfi-, tilfinninga-, vitsmuna-,félags-, fagur- og siðgæðisþroska.

1.1 Einstaklingurinn

Mæta þarf eftirfarandi frumþörfum mannsins í heilsuleikskólasamfélaginu bæði einstaklings- og hópbundið:

kærleikurinn, að tilheyra einhverjum

frelsi, að hafa valkosti

virðing, að vera viðurkenndur á eigin forsendum

glaðværð, að upplifa gleði

1.2 Kennarinn

Kennarar eru fyrirmynd barna og þurfa því að tileinka sér heilbrigðan lífsstíl og jákvætt viðhorf gagnvart heilsu, það eykur vellíðan þeirra í starfi. Í heilsuleikskóla sinnir allt starfsfólk uppeldi og menntun barna. Kennarar þurfa að vera jákvæðir gagnvart heildarsýn heilsustefnunnar og hvetja til og upplýsa um mikilvægi þess að temja sér heilbrigðan lífsstíl. Stuðla skal að því að nýta þann mannauð sem leikskólasamfélagið býður upp á hverju sinni.

1.3 Leikurinn

Leikurinn er hornsteinn leikskólastarfsins því hann er námsleið barnsins. Í bernsku felur leikur í sér nám, af leik sprettur ný þekking, nýjar tilfinningar, nýjar athafnir og leikni. Í leik tjáir barn tilfinningar sínar og fær útrás fyrir þær. Áhersla skal lögð á að gefa tíma og skapa umhverfi sem hvetur til sjálfsnáms í gegnum leik. Í frjálsum leik þarf að vera til efniviður sem býður upp á rannsóknir og sköpun.

1.4 Lífsleikni

Í heilsuleikskóla skal leggja áherslu á gæði í samskiptum og að bæði börn og starfsfólk tileinki sér ákveðin lífsgildi sem leggja grunn að vellíðan einstaklingsins í samskiptum við aðra. Góð færni í samskiptum styrkir og eflir einstaklinginn og sjálfsmynd hans. Í nútíma samfélagi er mikilvægt að tileinka sér víðsýni, umburðarlyndi, jákvæðni, hjálpsemi, gleði og vináttu svo eitthvað sé nefnt. Þessi lífsgildi ásamt mörgum öðrum eru lykilatriði þess að tilheyra lýðræðislegu samfélagi sem tekur tillit til allra, án tillits til kyns, litarháttar, menningar eða fötlunar.

1.5 Húsnæði og umhverfi

Húsnæði og umhverfi skal vera með þeim hætti að það veiti vellíðan og hvetji til góðra leikja. Einnig skal það veita barninu öryggiskennd og fyllsta öryggis og hreinlætis gætt. Ánægjulegt vinnuumhverfi eflir gagnkvæma virðingu, sjálfstraust, samkennd, samstöðu og samstarf allra í heilsuleikskólasamfélaginu. Hafa skal í huga að hreyfisvæði heilsuleikskóla stuðli að öryggi barna og dragi úr slysahættu. Útisvæði skal vera þannig hannað að það sé öruggt og bjóði upp á góða og fjölbreytta hreyfimöguleika. Gæta skal ábyrgðar og virðingar fyrir náttúrunni og umhverfinu.

1.6 Foreldrasamstarf

Áhersla skal lögð á virkt foreldrasamstarf sem þátt í vellíðan barna, þar sem mikilvægt er að náið samstarf og gagnkvæmt traust ríki á milli heimilis og heilsuleikskóla.

2. Heilsuleikskólar

Í heilsuleikskóla er heilsuefling höfð að leiðarljósi í einu og öllu. Skólinn er samfélag þar sem tækifæri gefst til að hafa áhrif á þá þætti sem hafa jákvæð áhrif á heilsu og velferð barna. Í skólanum gefst tækifæri til að koma til móts við þarfir barna og auka möguleika þeirra til að lifa góðu og innihaldsríku lífi. 

2.1 Hlutverk

Meginhlutverk heilsuleikskóla er að skapa aðstæður sem efla velferð og heilbrigði barna því líðan og heilsa barna hefur áhrif á getu þeirra til að læra og þroskast. Með því að venja börn við heilbrigða lífshætti strax í barnæsku má stuðla að því að þeir verði hluti af lífsstíl þeirra til framtíðar.

2.2 Markmið

Markmið heilsuleikskóla skal vera að auka gleði og vellíðan barna með áherslu á næringu, hreyfingu og listsköpun.

3. Áhersluþættir

Áhersluþættir heilsuleikskóla geta verið mismunandi eftir leikskólum en góð og holl næring, mikil hreyfing og sköpun skulu ávallt vera aðalsmerki þeirra.

3.1 Næring

Stuðla skal að góðum matarvenjum og hollustu með áherslu á ferskleika og fjölbreytni. Leggja skal áherslu á að auka grænmetis- og ávaxtaneyslu barnanna og nota sykur og salt í hófi. Vatn skal vera aðgengilegt fyrir börn og starfsmenn. Við samsetningu matseðla skal tekið mið af markmiðum Lýðheilsustöðvar varðandi næringu barna og fá næringarráðgjafa til að staðfesta samsetningu þeirra.

3.2 Hreyfing

Umhverfið þarf að bjóða upp á möguleika til gróf- og fínhreyfinga til að styrkja barnið líkamlega, andlega og félagslega úti og inni. Lögð skal áhersla á markvissa hreyfingu a.m.k. einu sinni í viku fyrir hvert barn, þar sem rauði þráðurinn er samhæfing, jafnvægi, kraftur og þor. Stuðlað er að líkamlegri og andlegri vellíðan ásamt gleði. Markmiðið er að efla alhliða þroska barnsins og líkamsvitund, sem leiðir af sér aukna félagsfærni og leikgleði sem eflir vináttubönd.

3.3 Sköpun

Mikilvægt er að vinna með og/eða tengja saman fjölbreytt tjáningarform sköpunar s.s. myndlist, tónlist og leiklist. Lögð skal áhersla á listsköpunartíma, þar sem unnið er með einn eða fleiri þætti sköpunar. Markmiðið er að viðhalda forvitni, sköpunargleði, efla sjálfstraust og ímyndunarafl barnanna. Sjálft sköpunarferlið skiptir meira máli en útkoman. Lögð skal áhersla á að börnin fái tækifæri til að prófa sig áfram með fjölbreyttan efnivið, geri tilraunir og þjálfi upp færni sem leiðir af sér að þau verði viss um eigin getu.

4. Heilsubók barnsins

Heilsubókin er skráning þroskasögu barnsins. Skráningin gerir kennurum kleift að fylgjast með þroskaframvindu barnsins og upplýsa foreldra. Skráð er m.a. heilsufar, hæð og þyngd, næring og sjálfshjálp, lífsleikni, grófhreyfingar og fínhreyfingar. Skráningin skal fara fram tvisvar á ári.

5. Heilsubraut

5.1 Að verða heilsuleikskóli

Þegar leikskóli hefur tekið ákvörðun um að vinna eftir heilsustefnunni setur hann sig í samband við formann Samtaka heilsuleikskóla eða einhvern heilsuleikskólanna. Stjórn samtakanna skoðar námskrá og húsnæði viðkomandi skóla og gefur í framhaldi af því ráðgjöf um aðlögun að markmiðum heilsustefnunnar ef á þarf að halda. Þegar leikskólinn hefur uppfyllt öll fyrrnefnd atriði er starfsleyfi sem heilsuleikskóli veitt með viðurkenningu og heilsufána.

5.2 Leikskóli á heilsubraut

Leikskóli sem sækir um að verða heilsuleikskóli fær vinnuheitið leikskóli á heilsubraut. Skólinn er þar með kominn í Samtök heilsuleikskóla og vinnur að því að uppfylla viðmið heilsustefnunnar. Heildarsýn skólans þarf að miðast við heilsustefnu Unnar Stefánsdóttur.