Rannsóknir sýna að mataræði og næringarástand barna hefur áhrif á heilsu þeirra, þroska, vöxt og alhliða líðan. Skólar kappkosta því að auka velferð barna með góðri næringu og hefur fyrirtækið sett sér sérstaka næringarstefnu varðandi næringu barna á leikskólum sínum. Stefnan er unnin af næringarfræðingi og lýðheilsufræðingi Skóla í takti við opinberar ráðleggingar um mataræði og næringarefni frá Embætti landlæknis.
Til að tryggja framgöngu stefnunnar hefur næringarfræðingur fyrirtækisins, ásamt matráðum leikskólanna, unnið 8 vikna sameiginlegan matseðil þar sem horft er á næringarsamsetningu hvers dags í heild sinni auk þess sem hver vika uppfyllir öll þau næringarmarkmið sem skólarnir eiga að uppfylla. Þar sem mismunandi næringarefni koma úr mismunandi matvælum er fjölbreytni í fæðuvali í hávegum höfð hjá leikskólum Skóla auk þess sem mikil áhersla er lögð á að elda allan mat frá grunni. Með fjölbreytni að leiðarljósi er passað upp á að ráðlögðum dagskammti (RDS) fyrir hvert og eitt vítamín og steinefni sé náð og stuðlar fjölbreytnin um leið að heilbrigðum matarvenjum barnanna til framtíðar.
Að lokum má geta þess að Skólar voru tilnefndir til Orðsporsins 2014 fyrir þessa vinnu. Það er kynningarnefnd Félags leikskólakennara (FL) og Félags stjórnenda leikskóla (FSL) sem stendur að þessari viðurkenningu sem veitt er í tilefni af Degi leikskólans 6. febrúar ár hvert. Orðsporið er veitt þeim sem hafa unnið að áhugaverðu verkefni í þágu leikskóla og/eða leikskólabarna.