Í Fréttatímanum um helgina birtist viðtal við Ólöfu Kristínu Sívertsen, fagstjóra hjá Skólum ehf. Hér má lesa viðtalið við Ólöfu:
„Heilsuleikskólar Skóla ehf. starfa undir einkunnarorðunum „heilbrigð sál í hraustum líkama“. Þeir hafa nú mótað sérstaka Næringarstefnu sem fylgt er eftir í öllum þeirra skólum. Nýir matseðlar þeirra byggja á vinsælustu réttum barnanna, lögð er áhersla á fjölbreytt íslenskt fæði og að halda magni sykurs, salts og harðrar fitu í lágmarki.
Heilsuleikskólar Skóla ehf. eru nú fimm talsins og er fyrirtækið einn af stofnaðilum Samtaka sjálfstæðra skóla (SSSK) og aðilar að Samtökum heilsuleiksóla. Ólöf Kristín Sívertsen er lýðheilsufræðingur og fagstjóri heilsuleikskólanna hjá Skólum. „Það var Unnur Stefánsdóttir, leikskólastjóri í Heilsuleikskólanum Urðarhóli í Kópavogi, sem hafði frumkvæði að mótun Heilsustefnu fyrir leikskóla. Markmið stefnunnar er að auka gleði og vellíðan barnanna með áherslu á næringu, hreyfingu og sköpun í leik. Hugmyndafræðin er sú að ef barn fær holla næringu og mikla hreyfingu, þá sprettur fram þörf til að skapa. Við hjá Heilsuleikskólum Skóla störfum eftir þessari stefnu auk 20 annara leikskóla,“ segir Ólöf.
Rannsóknir sýna að mataræði og næringarástand barna hefur áhrif á heilsu þeirra, þroska, vöxt og alhliða líðan. Skólar kappkosta því að auka velferð barna með góðri næringu og nú hefur fyrirtækið sett sér sérstaka Næringarstefnu. „Við höfum alltaf fylgt Heilsustefnunni og því lagt áherslu á hollt mataræði en okkur fannst kominn tími til að ramma almennilega inn það sem við erum að gera og gera sameiginlega matseðla fyrir alla skólana. Svo við settumst niður, ég sem lýðheilsufræðingur, næringarfræðingurinn og matráðar allra okkar leikskóla, til að setja saman heildstæða næringarstefnu sem byggir á opinberum ráðleggingum um mataræði og næringarefni frá embætti landlæknis. Við gerðum matseðil fyrir 8 vikna tímabil og er hver dagur og hver vika hugsuð sem næringarleg heild út frá næringarþörf barna, samkvæmt opinberum ráðleggingum. Við leggjum mikla áherslu á að elda allt frá grunni, að ráðlögðum dagskammti vítamína og steinefna sé náð og á fjölbreytnina því mismunandi næringarefni koma úr mismunandi fæðutegundum. Við gáfum stefnuna formlega út í byrjun ársins en höfum notast við matseðlana síðan í september 2013.“
Engin tómatsósa
Eftir að hafa borið saman bækur sínar komust matráðar leikskólanna að því að grjónagrautur og slátur er langvinsælasti rétturinn meðal barnanna en fast á eftir kemur soðin ýsa með kartöflum og smjöri. „Við tókum tómatsósuna alveg út af matseðlinum en næringarfræðingurinn var harður á því að tómatsósa passar ekki inn í heilsuleikskóla. En auðvitað er ekkert mál að búa til tómatsósu frá grunni. Við höfum stundum tómatsmjör með ýsunni, en þá blöndum við alvöru tómötum við smjörið. Smjörið er mikilvægt því börn þurfa fitu en þessi tómatsósa sem er keypt úti í búð er uppfull af sykri. Okkur fannst þetta stórt skref en það er einungis eitt barn af 450 sem hefur gert athugasemd við breytinguna,“ segir Ólöf
Mataruppeldi er mikilvægt Matartíminn í heilsuleikskólunum eru notalegar stundir þar sem reynt er að kenna börnunum að njóta þess að borða. Reynt er að hafa andrúmsloftið sem rólegast og kennararnir borða með börnunum. „Við viljum stuðla að heilbrigðum matarvenjum barnanna til framtíðar, vera góðar fyrirmyndir. Matarvenjur mótast strax í barnæsku og það er mjög mikilvægt að leikskólarnir séu meðvitaðir um það. Það er fólkið sem stendur manni næst sem eru helstu fyrirmyndir okkar en ekki einhverjar stjörnur út í heimi,“ segir Ólöf. Fyrirtækið Skólar ehf. stefna að því að verða leiðandi í þekkingu og aðferðafræði heilsueflandi leikskólastarfs. Ólöf segir marga skóla vera nú þegar að gera vel en þó megi alltaf gera betur. „Allt sem við höfum verið að gera er opið og matseðlarnir standa öllum til boða sem vilja nýta sér þá. Það er bara guðvelkomið og myndi gera okkur hjá Skólum mjög stolt og ánægð.“
Vikumatseðill frá Heilsuleikskólanum:
Gufusoðin ýsa með smjöri kartöflum og rófum, Ofnbakaður lambalifrarréttur með kartöflumús, brúnni sósu og grænmeti, Hrært skyr með rjómablandi, ilmandi brauði, áleggi og grænmeti, Ofnsteiktur þorskur með hýðishrísgrjónum, karrýsósu og hrásalati, Ofnsteiktir kjúklingaleggir með heilhveitipasta og salati.“