Í heilsuleikskólunum Brimveri á Eyrarbakka og Æskukoti á Stokkseyri fer fram markviss íþrótta- og jógakennsla í umsjá Tinnu Bjargar Kristinsdóttur íþróttakennara. Börnin stunda hreyfinguna í aldursskiptum hópum og fer kennslan fram tvisvar í viku á báðum stöðum og annan hvern föstudag.
Þetta fyrirkomulag hófst haustið 2013 og hefur gengið afskaplega vel. Börnin eru áhugasöm og dugleg í tímum sem skilar sér í stöðugum framförum og jákvæðu andrúmslofti. Jógastundirnar hafa slegið í gegn hjá bæði börnum, foreldrum og starfsfólki þar sem lagt er upp með að hafa þá eins áhugaverða og fjölbreytta og kostur er. Börnin hafa tekið auknum framförum þegar kemur að jafnvægi, liðleika og styrk, og má með sanni segja að þau séu orðin algjörir jógasnillingar. Einnig hefur andleg líðan og hugarfar breyst til hins betra og læra börnin að lifa í ró, sátt og samlyndi.
Leikskólarnir hafa verið duglegir í að virkja foreldra barnanna til þátttöku í jóga með ýmsum hætti. Til að mynda buðu þeir upp á fjölskyldustund í jóga í desember og mættu þá foreldrar og systkini með börnunum í jógatíma í leikskólunum. Hugmyndin var að leyfa fjölskyldunni að kynnast jógastarfinu og um leið að fá að sjá börnin í leik og starfi. Þetta lukkaðist mjög vel og voru börn, foreldrar og kennarar í skýjunum með hvernig til tókst. Síðan þá eru mörg dæmi um að foreldrar barnanna nýti sér hinar ýmsu jógastöður og slökunaraðferðir til að skapa notalegar og skemmtilegar fjölskyldustundir, annað hvort í lok dags eða um helgar.
Í mars fóru leikskólarnir af stað með samvinnuverkefni í jóga á milli heimila barnanna og leikskólanna. Verkefnið gengur út á það að annan hvern föstudag taka börnin með sér heim bók sem kallast „Jógabókin mín“. Í henni eru fjölbreyttar jógastöður sem þá aðallega líkjast dýrum eða öðrum náttúrufyrirbærum, og eiga börnin að framkvæma þær heima með foreldrum sínum. Að því loknu eiga þau að teikna jógastöðurnar – líkt og þau túlka þær – í bókina. Til dæmis ef jógastaðan sem um ræðir er „froskur“ þá teiknar barnið frosk við hliðna á myndinni af jógastöðunni. Einnig er í boði að klippa út myndir, t.d. ef barnið finnur mynd af froski í dagblaði, tímariti eða í tölvunni, og líma þær svo í bókina. Öll börn á aldrinum 1 árs til 6 ára taka þátt í þessu verkefni. Börnin vinna eina opnu í senn yfir helgi og skila síðan bókinni aftur þegar komið er til baka í leikskólann á mánudegi. Fyrir hverja opnu sem unnin er fá börnin stjörnu. Þetta hefur gengið vonum framar og hafa bæði börn og foreldrar sýnt verkefninu mikinn áhuga.
Leikskólarnir leggja mikinn metnað í heilsustarfsemi sína og vilja þeir meðal annars hlúa að henni með því að auka þekkingu starfsmanna sinna. Í september nk. mun Tinna Björg Kristinsdóttir íþróttakennari fara á jógakennaranámskeið í Denver, Colorado, en með því vonast leikskólarnir eftir því að auka fjölbreytnina í starfi sínu enn frekar.