Tannverndarvika

Embætti landlæknis og Tannlæknafélag Íslands standa fyrir árlegri tannverndarviku 2. til 7. febrúar 2015. Tannverndarvikan árið 2015 er helguð því að kynna landsmönnum mikilvægi þess að draga úr sykurneyslu. Kjörorð vikunnar er Sjaldan sætindi og í litlu magni.

Í tilefni þessa kynnir Embætti landlæknis nýjan vef, www.sykurmagn.is. Á vefnum eru myndrænar upp­lýsingar um viðbættan sykur í ýmsum matvælum, sætindum og sykruðum gos- og svaladrykkjum.

Annar liður í tilefni Tannverndarviku er útgáfa myndbandsins Sykur á borðum.  Í því er litið inn hjá fjölskyldu sem ætlar að eiga notalega stund við sjónvarpið. Myndbandið verður aðgengilegt á vef Embættis landlæknis frá 2. febrúar á slóðinni: http://www.landlaeknir.is/tannvernd.

Embætti landlæknis hvetur landsmenn til þess að draga úr neyslu gosdrykkja og gæta hófs í neyslu á sælgæti, kökum, kexi og ís auk þess að hirða tennurnar vel því þannig má stuðla að betri heilsu og betri tannheilsu.

Sumarleyfi á Landspítala

Í dag er fæðingardagur Unnar Stefánsdóttur leikskólakennara og stofnanda Heilsustefnunnar. Unnur fæddist 18. janúar árið 1951 og hefði orðið 64 ára í dag, en hún lést af völdum krabbameins þann 8. ágúst 2011. Heilsustefnan rakst á þessa grein eftir Unni, „Sumarleyfi á Landspítala“, sem hún skrifaði eftir að hún fór í sína fyrstu krabbameinsaðgerð sumarið 2008. Greinin birtist í Morgunblaðinu og er lýsandi fyrir hugarfar Unnar, en með henni vildi hún koma á framfæri þakklæti til fólksins sem annaðist hana á meðan hún dvaldi á spítalanum:

 

Sumarleyfi á Landspítala

Í JÚNÍ varð undirrituð fyrir þeirri lífsreynslu að þurfa að fara í aðgerð á Landspítala við Hringbraut. Í stað þess að fara í sumarleyfi á þessum tíma tók við aðgerð og lega eftir það eins og eðlilegt er. Þessi lífsreynsla hafði mikil áhrif á mig og vil ég með þessum skrifum lýsa þakklæti mínu við þá fjölmörgu sem komu þar að.

Undirbúningur

Nokkrum dögum fyrir aðgerð var ég kölluð inn á göngudeild til undirbúnings aðgerðinni og því sem á eftir kom. Viðtöl við svæfingarlækni og skurðlækni sem útskýrðu það sem framundan væri og hverju ég mætti búast við. Einnig talaði ég við sjúkraþjálfara, aðstoðarlækni og blóðþrýstingur var mældur og blóðprufur teknar. Þetta var mjög gott fyrir mig, sem aldrei fyrr hafði farið í aðgerð á sjúkrahúsi, að fá þennan undirbúning og vita að einhverju leyti hvað var í vændum.

Aðgerð

Kvöldið fyrir aðgerðina kom ég á deildina mína sem var 13 G og fékk eina sprautu og mátti síðan sofa heima. Þó ekki hafi svefninn verið með best móti, var þó betra að vera heima í sínu rúmi, en á nýjum ókunnum stað. Að morgni dags var tekið vel á móti mér og var ég sett á stofu 5, þar sem eldri kona var í sjúkrarúmi og búin að vera í fjórar vikur. Hún tók líka vel á móti mér. Eftir undirbúning á stofu var mér ekið niður á aðra hæð og þar fór fram áframhaldandi undirbúningur fyrir aðgerðina m.a. mænudeyfing, sem er mikil tækni til að koma í veg fyrir verki eftir aðgerð. Ekkert vissi ég af mér meðan aðgerðin fór fram, líka eins gott og mikið vandaverk sem skurðlæknar taka að sér og annað aðstoðarfólk, sem kemur þar að.

Spítalavist

Þegar ég vaknaði aftur var ég á svokallaðri vöknun og var þar fylgst með öllu hugsanlegu sem þarf að vera í lagi með aðstoð hjúkrunarfræðinga og allskyns tækja og tóla, sem ég ætla ekki að telja upp hér. Um kvöldið var mér ekið aftur á mína stofu og umhyggja hjúkrunarfræðinga þar tók við. Það var með mig eins og væntanlega flesta aðra sjúklinga, að mikilvægt er að fara sem fyrst framúr og ganga um með aðstoð sjúkraþjálfara eða sjúkraliða. Stöðugt var verið að fylgjast með að líðan mín væri góð og allt kerfið gengi samkvæmt því sem hægt er að ætlast til eftir aðgerð. Eftir því sem dagarnir liðu fækkaði slöngunum sem ég var tengd við fyrst eftir aðgerðina og smám saman var hægt að ganga lengra eða fara fleiri ferðir eftir ganginum. Maturinn kom alltaf á sama tíma. Hver sjúklingur var með bókað hvað hann ætti og mætti borða sýndist mér, og sem vænta mátti var matarlystin mjög af skornum skammti fyrstu dagana. Ég undraðist reyndar hve matarskammtarnir voru stórir. Hálfur skammtur var meira en ég er vön að borða undir venjulegum kringumstæðum, en fjölbreytnin var mikil og ótrúlega margar tegundir af súpum og grænmeti.

13 G til fyrirmyndar

Eftir 7 daga dvöl var ég útskrifuð og hélt heim. Dvölin á deildinni var ótrúlega notaleg. Hjúkrunarfræðingarnir sáu til þess að halda mér verkjalausri og allt gert til að mér liði sem best. Mér skilst, að mænudeyfingin sem var gerð fyrir aðgerð hafi heppnast fullkomlega. Svo er fyrir að þakka svæfingarlækninum. Læknirinn sem framkvæmdi aðgerðina kom nær daglega og talaði við mig og fylgdist með hvernig mér liði. Sjúkraliðarnir voru alltaf að koma inn á stofu og sáu til þess að allt umhverfi væri í lagi og gerðu lífið auðveldara. Allir voru svo vingjarnlegir, meira að segja ræstistúlkan vann sína vinnu með bros á vör

Hér með langar mig að þakka öllum sem komu að þessu verkefni kærlega fyrir hjálpina og fyrir það að vera svo vingjarnlegir og þægilegir í umgengni sem raun bar vitni um. Ég gef deild 13G á Landspítala við Hringbraut hæstu einkunn.

UNNUR STEFÁNSDÓTTIR,

íbúi í Vesturbæ Kópavogs.

 

Bleikur dagur á morgun

Október er mánuður Bleiku slaufunnar, árveknis- og fjáröflunarátaks Krabbameinsfélags Íslands gegn krabbameinum hjá konum. Á morgun, 16. október, er Bleikur dagur á landsvísu og eru allir landsmenn hvattir til að klæðast einhverju bleiku eða hafa bleikan lit í fyrirrúmi þann dag. Bleiki dagurinn hefur markað sér sérstöðu á flestum vinnustöðum þar sem bleiki liturinn er alsráðandi á margvíslegan hátt. Við hvetjum fólk því til að njóta saman dagsins og vekja um leið athygli á árveknisátakinu.

Hreyfivika í Háaleiti

Í næstu viku, 29. september til 3. október, verður svokölluð Hreyfivika eða “Move week” í heilsuleikskólanum Háaleiti. Hreyfivikan er árlegur atburður og hluti af NowWeMOVE-herferðinni. Markmið hennar er að fá fleiri Evrópubúa til að stunda hreyfingu daglega. Það er áætlað að um 600 þúsund manns látist í Evrópu á ári vegna hreyfingarleysis og 2/3 fullorðinna ná ekki að mæta almennum ráðleggingum varðandi daglega hreyfingu.

Í ár ætlar Heilsuleikskólinn Háaleiti að taka þátt í þessari viku og hvetur alla foreldra til að gera slíkt hið sama. Allir foreldrar ættu að geta fundið 20 mínútur á dag þar sem þeir hreyfa sig létt með börnunum sínum.

Það er hægt að skoða dagskrá hreyfivikunnar með því að smella hér.

Með því að smella hér er hægt að sjá skemmtilegan leik sem er í gangi í hreyfivikunni.

Garðasel á Akranesi fagnar 23 ára afmæli

Mánudaginn 1. september fagnaði Garðasel á Akranesi 23ja ára afmæli sínu  og var blásið til búningadags í tilefni dagsins. Margar verur voru á kreiki í leikskólanum þennan dag, margir íþróttaálfar og Sollur mættu, Batman, köngulóarmaðurinn, Súpermann, trúðar, prinsar og prinessur, Lína Langsokkur og margir margir fleiri. Um morguninn var sameiginleg afmælisstund á Skála þar sem marserað var um skólann og  síðan var dansað  og sungið.

Urðarhólshlaup í minningu Unnar

Heilsuleikskólinn Urðarhóll var með Urðarhólshlaupið á Rútstúni í dag. Hlaupið er haldið í minningu Unnar Stefánsdóttur sem er höfundur Heilsustefnunnar, fyrrum leikskólastjóri Heiluleikskólans Urðarhóls og einnig var hún mikill hlaupar. Unnur lést árið 2011 en það ár var fyrsta Urðarhólshlaupið haldið.
Markmið Heilsuleikskólans Urðarhóls er að auka gleði og vellíðan barnanna með áherslu á næringu, hreyfingu og sköpun.
Í ár var í fyrsta skipti hlaupið í fimm hópum þ.e. b…örn fædd 2008, 2009, 2010, 2011 og svo kennarar. Mikil gleði og eftirvænting var hjá öllum hópum og kláruðu allir hlaupið með glæsibrag. Í lokin var brekkusöngur þar sem Unnar Stefánsdóttur var minnst og lagið Öxar við ánna var sungið.
Við í Urðarhóli viljum hvetja alla til að huga að heilsunni . Hvetjum foreldra til að hreyfa sig með börnum sínum, það eflir tilfinningartengsl fjölskyldunnar og er grunnur að góðri geðheilsu.

Sumar og heilsukveðjur
Kennarar í Heilsuleikskólanum Urðarhóli

Heilsuleikskólinn Krókur vinnur til verðlauna

Starfsfólk Heilsuleikskólans Króks tók á dögunum þátt í átakinu „Hjólað í vinnuna“ sem Íþrótta- og ólympíusamband Íslands stendur að. Þau voru í flokknum 19-30 starfsmenn (fjöldi) og enduðu í 3. sæti en alls tóku 122 lið þátt í þeim flokki. Starfsfólkið er að vonum mjög ánægt með árangurinn en þær segjast þó langt í frá vera hættar og stefna ótrauðar á 1. sætið að ári.

Þess má geta að í þessu átaki ÍSÍ voru alls hjólaðir 734.946 km eða 548,88 hringir í kringum landið. Við það sparaðist um 118 tonn af útblæstri CO2 og rúmlega 70 þúsund lítrar af eldsneyti sem gera sparnað upp á 17 milljónir króna. Brenndar voru um 46 miljónir kaloría sé þessi vegalengd gengin en 24 milljónir kaloría sé þessi vegalengd hjóluð.

Vorhlaup Krógabóls

Í gær var Vorhlaup Krógabóls á Akureyri. Allar deildir leikskólans gengu frá leikskólanum og niður á hlaupabraut Þórs við Hamar. Þar tók Solla á móti öllum og var byrjað á því að hita upp og tóku allir þátt af miklum móð. Allir voru með og voru það verðlaunin, að taka þátt og gera sitt besta. Hér er hægt að skoða myndir úr hlaupinu og einnig myndband af upphituninni.