Það kom ferskur vindur með Unni Stefánsdóttur inn í kvennastarfið í Framsóknarflokknum fyrir þremur áratugum þegar við hittumst fyrst. Ég var uppfull af jafnréttisbaráttunni, komandi úr kvennaframboðinu, og lítið annað komst að hjá mér þá stundina. Unnur var líka mikill jafnréttissinni, – en hún hafði ýmis önnur hugðarefni sem hún bar mjög fyrir brjósti og voru ekki sérstaklega hátt skrifuð í Framsóknarflokknum þá. Það var heilsueflingin og hollustan. Hún var keppnismannsekja eins og allir sem þekktu hana vita og lét ekkert á sig fá þótt einhverjir flissuðu að þessu heilsutali hennar. Hún hélt áfram hnarreist og brosandi.
Hún varð formaður Landssambands framsóknarkvenna árið 1985. Við stjórnarkonurnar tókum undir með henni og gerðum heilsu og manneldismálin að okkar áherslumálum. Hún hreif okkur með sér og hollustumálin urðu samhliða jafnréttinu. Hún sýndi í verki áherslur sínar og stefnu og bauð upp á niðursneidda ávexti, grænmeti, safa og aðra hollustu á fundum, – þar sem vínarbrauð, sætmeti og kaffi hafði haft fastan sess. Við settum manneldis- og neyslustefnu sem forgangsmál fyrir tilstilli hennar og ég sannfærðist og varð eldheitur talsmaður hollustunnar.
Þegar ég fór í fyrsta sinn inn á þing í upphafi árs 1987 sem varamaður fékk ég í hendur þingsályktun frá Noregi á norsku um opinbera manneldis- og neyslustefnu til að flytja á þinginu, sem Unnur hafði útvegað og það var ekki aftur snúið. Í framhaldinu þrýstu konurnar með Unni í fararbroddi á heilbrigðisráðherra Framsóknar, Guðmund Bjarnason, að leggja fram slíka stefnu, sem hann gerði.
Heilbrigðismálin, heilsuefling og hreyfing urðu mín helstu áherslumál síðar, meðal annars vegna áhrifa frá Unni og hennar baráttu. Hún hafði sannfært mig, eins og svo marga aðra. Þar sem hér eru allmargir stjórnmálamenn get ég fullyrt að hún hafði mikil áhrif á forvarnar- og heilsubaráttu þeirra margra, og nefni ég Siv Friðleifsdóttur fv. heilbrigðisráðherra sérstaklega, að öðrum ólöstuðum.
Unnur var trú sinni stefnu, eitilhörð á sinn hægláta hátt. Það var sama hvað á gékk til að reyna að bregða fyrir hana fæti í þessum hollustuleiðangri. Hún stóð alltaf keik og lét ekkert aftra sér. Hún var sjálf sjálft heilbrigðið uppmálað. Hún var aðdáunarverð og henni var ekki fisjað saman. Hún var hrein og bein og mjög sérstök manneskja. Hún var á undan sinni samtíð, stóð með sannfæringu sinni óhrædd og huguð.
Þegar ég starfaði í Tryggingastofnun var Unnur að vinna að heilsueflingarverkefni fyrir Heilbrigðisráðuneytið og Landlækni. Þá voru Tryggingastofnun, Landlæknir og ráðuneytið til húsa við Hlemm í sama húsi. Lágu leiðir okkar þá oft saman og var ánægjulegt að fylgjast með ötulu stafi hennar, hún var ótrúleg. Það voru plaköt, bæklingar, leiðbeiningar og hvaðeina. Þetta var á þeim tíma sem skilningur var ekki mikill á þessum málum og hún mætti oft þessum takmarkaða skilningi.
Hún var í heilbrigðis- og hollustuleiðangri í lífinu og fór alla leið. Hvort sem var heima eða að heiman. Var alltaf sjálfri sér samkvæm. Hún var sannkallaður trúboði heilsustefnunnar eins og einn fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Ingibjörg Pálmadóttir, orðaði það svo ágætlega við mig. „Þetta með matinn var henni heilagt.“ Og hún barðist fyrir styrkjum og fjárveitingum til málefnisins, hvar sem matarholu var að finna.
Þótt Unni hafi verið skammtaður takmarkaður tími í árum talið hér á meðal okkar, þá er tíminn ekki endilega sá mælikvarði sem rétt er að nota á lífið heldur hversu miklu menn fá áorkað í lífinu, hversu mikil áhrif þeir hafa á samtíð sína og hvort þeir marki þar spor. Unnur áorkaði miklu í lífinu, hún var afburða keppnismaður í öllu sem hún tók sér fyrir hendur eins og íþróttamet og annar árangur hennar sýnir.
Hún á glæsilega fjölskyldu, mannvænleg börn sem hún sinnti mjög vel og var stefnumálum sínum trú í hvívetna við uppeldið. Ég minnist líka nýstárlegra uppeldisaðferða við ungbörn sem hún beitti við Hörpu Dís og vakti athygli. Nokkuð sem ég get ekki séð annað en að hafi gefist afar vel.
Hollustan var hennar höfuðmál og þar náði hún að hafa áhrif á heila kynslóð – svo og komandi kynslóðir, því „ungur nemur, gamall temur“. Unnur var frumkvöðull, – og frumkvöðulshlutverkið er erfitt. Frumkvöðlar þurfa að fara grýtta braut til að ná sínu fram. Þá braut fór hún og gafst aldrei upp og kvartaði aldrei ef á móti blés. Hún fór hana á sinn hátt með bros á vör og léttri lund. Árangurinn er meðal annars það sem við sjáum og höfum heyrt í dag, – heilsuleikskólarnir orðnir 21 og þeim mun fjölga og heilsustefna sem er orðin sjálfsögð.
Það er mér sönn ánægja að fá að opna heimasíðu heilsustefnu Unnar Stefánsdóttur sem er verðugur minnisvarði um hennar mikla brautryðjendastarf í manneldismálum og heilsuvernd. Komandi kynslóðir verða í ævarandi þakkarskuld við hana. Ég opna hér með formlega heimasíðu heilsustefnu Unnar Stefánsdóttur.
ÁRJ/ 18. jan. 2013.