Sumarleyfi á Landspítala

Í dag er fæðingardagur Unnar Stefánsdóttur leikskólakennara og stofnanda Heilsustefnunnar. Unnur fæddist 18. janúar árið 1951 og hefði orðið 64 ára í dag, en hún lést af völdum krabbameins þann 8. ágúst 2011. Heilsustefnan rakst á þessa grein eftir Unni, „Sumarleyfi á Landspítala“, sem hún skrifaði eftir að hún fór í sína fyrstu krabbameinsaðgerð sumarið 2008. Greinin birtist í Morgunblaðinu og er lýsandi fyrir hugarfar Unnar, en með henni vildi hún koma á framfæri þakklæti til fólksins sem annaðist hana á meðan hún dvaldi á spítalanum:

 

Sumarleyfi á Landspítala

Í JÚNÍ varð undirrituð fyrir þeirri lífsreynslu að þurfa að fara í aðgerð á Landspítala við Hringbraut. Í stað þess að fara í sumarleyfi á þessum tíma tók við aðgerð og lega eftir það eins og eðlilegt er. Þessi lífsreynsla hafði mikil áhrif á mig og vil ég með þessum skrifum lýsa þakklæti mínu við þá fjölmörgu sem komu þar að.

Undirbúningur

Nokkrum dögum fyrir aðgerð var ég kölluð inn á göngudeild til undirbúnings aðgerðinni og því sem á eftir kom. Viðtöl við svæfingarlækni og skurðlækni sem útskýrðu það sem framundan væri og hverju ég mætti búast við. Einnig talaði ég við sjúkraþjálfara, aðstoðarlækni og blóðþrýstingur var mældur og blóðprufur teknar. Þetta var mjög gott fyrir mig, sem aldrei fyrr hafði farið í aðgerð á sjúkrahúsi, að fá þennan undirbúning og vita að einhverju leyti hvað var í vændum.

Aðgerð

Kvöldið fyrir aðgerðina kom ég á deildina mína sem var 13 G og fékk eina sprautu og mátti síðan sofa heima. Þó ekki hafi svefninn verið með best móti, var þó betra að vera heima í sínu rúmi, en á nýjum ókunnum stað. Að morgni dags var tekið vel á móti mér og var ég sett á stofu 5, þar sem eldri kona var í sjúkrarúmi og búin að vera í fjórar vikur. Hún tók líka vel á móti mér. Eftir undirbúning á stofu var mér ekið niður á aðra hæð og þar fór fram áframhaldandi undirbúningur fyrir aðgerðina m.a. mænudeyfing, sem er mikil tækni til að koma í veg fyrir verki eftir aðgerð. Ekkert vissi ég af mér meðan aðgerðin fór fram, líka eins gott og mikið vandaverk sem skurðlæknar taka að sér og annað aðstoðarfólk, sem kemur þar að.

Spítalavist

Þegar ég vaknaði aftur var ég á svokallaðri vöknun og var þar fylgst með öllu hugsanlegu sem þarf að vera í lagi með aðstoð hjúkrunarfræðinga og allskyns tækja og tóla, sem ég ætla ekki að telja upp hér. Um kvöldið var mér ekið aftur á mína stofu og umhyggja hjúkrunarfræðinga þar tók við. Það var með mig eins og væntanlega flesta aðra sjúklinga, að mikilvægt er að fara sem fyrst framúr og ganga um með aðstoð sjúkraþjálfara eða sjúkraliða. Stöðugt var verið að fylgjast með að líðan mín væri góð og allt kerfið gengi samkvæmt því sem hægt er að ætlast til eftir aðgerð. Eftir því sem dagarnir liðu fækkaði slöngunum sem ég var tengd við fyrst eftir aðgerðina og smám saman var hægt að ganga lengra eða fara fleiri ferðir eftir ganginum. Maturinn kom alltaf á sama tíma. Hver sjúklingur var með bókað hvað hann ætti og mætti borða sýndist mér, og sem vænta mátti var matarlystin mjög af skornum skammti fyrstu dagana. Ég undraðist reyndar hve matarskammtarnir voru stórir. Hálfur skammtur var meira en ég er vön að borða undir venjulegum kringumstæðum, en fjölbreytnin var mikil og ótrúlega margar tegundir af súpum og grænmeti.

13 G til fyrirmyndar

Eftir 7 daga dvöl var ég útskrifuð og hélt heim. Dvölin á deildinni var ótrúlega notaleg. Hjúkrunarfræðingarnir sáu til þess að halda mér verkjalausri og allt gert til að mér liði sem best. Mér skilst, að mænudeyfingin sem var gerð fyrir aðgerð hafi heppnast fullkomlega. Svo er fyrir að þakka svæfingarlækninum. Læknirinn sem framkvæmdi aðgerðina kom nær daglega og talaði við mig og fylgdist með hvernig mér liði. Sjúkraliðarnir voru alltaf að koma inn á stofu og sáu til þess að allt umhverfi væri í lagi og gerðu lífið auðveldara. Allir voru svo vingjarnlegir, meira að segja ræstistúlkan vann sína vinnu með bros á vör

Hér með langar mig að þakka öllum sem komu að þessu verkefni kærlega fyrir hjálpina og fyrir það að vera svo vingjarnlegir og þægilegir í umgengni sem raun bar vitni um. Ég gef deild 13G á Landspítala við Hringbraut hæstu einkunn.

UNNUR STEFÁNSDÓTTIR,

íbúi í Vesturbæ Kópavogs.

 

Birt í Fréttir, Fréttir og Kynningarefni.