Listsköpun
Barn hefur mikla þörf fyrir að skapa og gerir það allar stundir í leik sínum. Það, að vinna út frá eigin forsendum og með þann efnivið sem það kýs hverju sinni, gefur barni færi á að þroska alla hæfileika sína. Skapandi starf eflir gagnrýna hugsun barna, þjálfar rökhugsun og eflir skynjun barns og næmi fyrir umhverfinu.
Mikilvægt er að vinna með og/eða tengja saman fjölbreytt tjáningarform listsköpunar s.s. myndlist, tónlist og leiklist. Lögð skal áhersla á markvissa listsköpunartíma frá 2 ára aldri, þar sem unnið er með einn eða fleiri þætti listsköpunar. Markmiðið er að viðhalda forvitni, sköpunargleði, efla sjálfstraust og ímyndunarafl barna. Sjálft sköpunarferlið skiptir meira máli en útkoman. Lögð skal áhersla á að börn fái tækifæri til að prófa sig áfram með fjölbreyttan efnivið, geri tilraunir og þjálfi upp færni sem leiðir af sér að þau verði viss um eigin getu.