Hreyfing

Börn hafa ríka þörf fyrir að hreyfa sig frjálst og óhindrað. Í leikskóla ber því að leggja áherslu á hreyfingu barna og hreyfiuppeldi.  Börn tjá sig snemma með hreyfingum, þau skynja líkama sinn og  finna styrk sinn og getu.  Góð hreyfifærni eykur sjálfstraust barns og hreyfing bætir heilsu, snerpu og þol.  Líkamlegri áreynslu fylgir hvíld og þar skynjar barn mun á spennu og slökun.

Í markvissri hreyfiþjálfun eflist alhliða þroski barnsins. Barnið öðlast betri líkamsvitund og góð líkamleg færni leiðir af sér ánægðara barn. Sjálfsöruggt og ánægt barn á auðveldara með að leika sér og tileinka sér þekkingu. Markviss hreyfiþjálfun hefur einnig áhrif á málþroska og málskilning barna og þar með eykst félagsfærni og leikgleði sem eflir vináttubönd.

Umhverfið þarf að bjóða upp á möguleika bæði til gróf- og fínhreyfinga til að styrkja barn líkamlega, andlega og félagslega, úti og inni.

Í heilsuleikskóla skal leggja áhersla á markvissa og skipulagða  hreyfingu a.m.k. 1 sinni í viku fyrir hvert barn frá 2 ára aldri, sem stuðlar að líkamlegri og andlegri vellíðan ásamt gleði.

Markmið með hreyfingu:

að efla líkamsvitund barna

– að efla hreyfiþroska barna, hreyfigetu og auka með þeim úthald og styrk

– að þjálfa samhæfingu  og stuðla að andlegri og líkamlegri vellíðan barna

– að kenna börnum að fylgja fyrirmælum, sýna tillitsemi og efla með þeim samvinnu

 

Birt í Frontpage-top-content.