Vorhlaup Krógabóls

Í gær var Vorhlaup Krógabóls á Akureyri. Allar deildir leikskólans gengu frá leikskólanum og niður á hlaupabraut Þórs við Hamar. Þar tók Solla á móti öllum og var byrjað á því að hita upp og tóku allir þátt af miklum móð. Allir voru með og voru það verðlaunin, að taka þátt og gera sitt besta. Hér er hægt að skoða myndir úr hlaupinu og einnig myndband af upphituninni.

Jógakennsla í heilsuleikskólunum Brimveri og Æskukoti

Í heilsuleikskólunum Brimveri á Eyrarbakka og Æskukoti á Stokkseyri fer fram markviss íþrótta- og jógakennsla í umsjá Tinnu Bjargar Kristinsdóttur íþróttakennara. Börnin stunda hreyfinguna í aldursskiptum hópum og fer kennslan fram tvisvar í viku á báðum stöðum og annan hvern föstudag.

Þetta fyrirkomulag hófst haustið 2013 og hefur gengið afskaplega vel. Börnin eru áhugasöm og dugleg í tímum sem skilar sér í stöðugum framförum og jákvæðu andrúmslofti.  Jógastundirnar hafa slegið í gegn hjá bæði börnum, foreldrum og starfsfólki þar sem lagt er upp með að hafa þá eins áhugaverða og fjölbreytta og kostur er. Börnin hafa tekið auknum framförum þegar kemur að jafnvægi, liðleika og styrk, og má með sanni segja að þau séu orðin algjörir jógasnillingar. Einnig hefur andleg líðan og hugarfar breyst til hins betra og læra börnin að lifa í ró, sátt og samlyndi.

Leikskólarnir hafa verið duglegir í að virkja foreldra barnanna til þátttöku í jóga með ýmsum hætti. Til að mynda buðu þeir upp á fjölskyldustund í jóga í desember og mættu þá foreldrar og systkini með börnunum í jógatíma í leikskólunum. Hugmyndin var að leyfa fjölskyldunni að kynnast jógastarfinu og um leið að fá að sjá börnin í leik og starfi. Þetta lukkaðist mjög vel og voru börn, foreldrar og kennarar í skýjunum með hvernig til tókst. Síðan þá eru mörg dæmi um að foreldrar barnanna nýti sér  hinar ýmsu jógastöður og slökunaraðferðir til að skapa notalegar og skemmtilegar fjölskyldustundir, annað hvort í lok dags eða um helgar.

Í mars fóru leikskólarnir af stað með samvinnuverkefni í jóga á milli heimila barnanna og leikskólanna. Verkefnið gengur út á það að annan hvern föstudag taka börnin með sér heim bók sem kallast „Jógabókin mín“. Í henni eru fjölbreyttar jógastöður sem þá aðallega líkjast dýrum eða öðrum náttúrufyrirbærum, og eiga börnin að framkvæma þær heima með foreldrum sínum. Að því loknu eiga þau að teikna jógastöðurnar – líkt og þau túlka þær – í bókina. Til dæmis ef jógastaðan sem um ræðir er „froskur“ þá teiknar barnið frosk við hliðna á myndinni af jógastöðunni. Einnig er í boði að klippa út myndir, t.d. ef barnið finnur mynd af froski í dagblaði, tímariti eða í tölvunni, og líma þær svo í bókina. Öll börn á aldrinum 1 árs til 6 ára taka þátt í þessu verkefni. Börnin vinna eina opnu í senn yfir helgi og skila síðan bókinni aftur þegar komið er til baka í leikskólann á mánudegi. Fyrir hverja opnu sem unnin er fá börnin stjörnu. Þetta hefur gengið vonum framar og hafa bæði börn og foreldrar sýnt verkefninu mikinn áhuga.

Leikskólarnir leggja mikinn metnað í heilsustarfsemi sína og vilja þeir meðal annars hlúa að henni með því að auka þekkingu starfsmanna sinna. Í september nk. mun Tinna Björg Kristinsdóttir íþróttakennari fara á jógakennaranámskeið í Denver, Colorado, en með því vonast leikskólarnir eftir því að auka fjölbreytnina í starfi sínu enn frekar.

 

 

Viðtal við Ólöfu Kristínu Sívertsen í Fréttatímanum

Í Fréttatímanum um helgina birtist viðtal við Ólöfu Kristínu Sívertsen, fagstjóra hjá Skólum ehf. Hér má lesa viðtalið við Ólöfu:

„Heilsuleikskólar Skóla ehf. starfa undir einkunnarorðunum „heilbrigð sál í hraustum líkama“. Þeir hafa nú mótað sérstaka Næringarstefnu sem fylgt er eftir í öllum þeirra skólum. Nýir matseðlar þeirra byggja á vinsælustu réttum barnanna, lögð er áhersla á fjölbreytt íslenskt fæði og að halda magni sykurs, salts og harðrar fitu í lágmarki.

Heilsuleikskólar Skóla ehf. eru nú fimm talsins og er fyrirtækið einn af stofnaðilum Samtaka sjálfstæðra skóla (SSSK) og aðilar að Samtökum heilsuleiksóla. Ólöf Kristín Sívertsen er lýðheilsufræðingur og fagstjóri heilsuleikskólanna hjá Skólum. „Það var Unnur Stefánsdóttir, leikskólastjóri í Heilsuleikskólanum Urðarhóli í Kópavogi, sem hafði frumkvæði að mótun Heilsustefnu fyrir leikskóla. Markmið stefnunnar er að auka gleði og vellíðan barnanna með áherslu á næringu, hreyfingu og sköpun í leik. Hugmyndafræðin er sú að ef barn fær holla næringu og mikla hreyfingu, þá sprettur fram þörf til að skapa. Við hjá Heilsuleikskólum Skóla störfum eftir þessari stefnu auk 20 annara leikskóla,“ segir Ólöf.

Rannsóknir sýna að mataræði og næringarástand barna hefur áhrif á heilsu þeirra, þroska, vöxt og alhliða líðan. Skólar kappkosta því að auka velferð barna með góðri næringu og nú hefur fyrirtækið sett sér sérstaka Næringarstefnu. „Við höfum alltaf fylgt Heilsustefnunni og því lagt áherslu á hollt mataræði en okkur fannst kominn tími til að ramma almennilega inn það sem við erum að gera og gera sameiginlega matseðla fyrir alla skólana. Svo við settumst niður, ég sem lýðheilsufræðingur, næringarfræðingurinn og matráðar allra okkar leikskóla, til að setja saman heildstæða næringarstefnu sem byggir á opinberum ráðleggingum um mataræði og næringarefni frá embætti landlæknis. Við gerðum matseðil fyrir 8 vikna tímabil og er hver dagur og hver vika hugsuð sem næringarleg heild út frá næringarþörf barna, samkvæmt opinberum ráðleggingum. Við leggjum mikla áherslu á að elda allt frá grunni, að ráðlögðum dagskammti vítamína og steinefna sé náð og á fjölbreytnina því mismunandi næringarefni koma úr mismunandi fæðutegundum. Við gáfum stefnuna formlega út í byrjun ársins en höfum notast við matseðlana síðan í september 2013.“

Engin tómatsósa

Eftir að hafa borið saman bækur sínar komust matráðar leikskólanna að því að grjónagrautur og slátur er langvinsælasti rétturinn meðal barnanna en fast á eftir kemur soðin ýsa með kartöflum og smjöri. „Við tókum tómatsósuna alveg út af matseðlinum en næringarfræðingurinn var harður á því að tómatsósa passar ekki inn í heilsuleikskóla. En auðvitað er ekkert mál að búa til tómatsósu frá grunni. Við höfum stundum tómatsmjör með ýsunni, en þá blöndum við alvöru tómötum við smjörið. Smjörið er mikilvægt því börn þurfa fitu en þessi tómatsósa sem er keypt úti í búð er uppfull af sykri. Okkur fannst þetta stórt skref en það er einungis eitt barn af 450 sem hefur gert athugasemd við breytinguna,“ segir Ólöf

Mataruppeldi er mikilvægt

Matartíminn í heilsuleikskólunum eru notalegar stundir þar sem reynt er að kenna börnunum að njóta þess að borða. Reynt er að hafa andrúmsloftið sem rólegast og kennararnir borða með börnunum. „Við viljum stuðla að heilbrigðum matarvenjum barnanna til framtíðar, vera góðar fyrirmyndir. Matarvenjur mótast strax í barnæsku og það er mjög mikilvægt að leikskólarnir séu meðvitaðir um það. Það er fólkið sem stendur manni næst sem eru helstu fyrirmyndir okkar en ekki einhverjar stjörnur út í heimi,“ segir Ólöf. Fyrirtækið Skólar ehf. stefna að því að verða leiðandi í þekkingu og aðferðafræði heilsueflandi leikskólastarfs. Ólöf segir marga skóla vera nú þegar að gera vel en þó megi alltaf gera betur. „Allt sem við höfum verið að gera er opið og matseðlarnir standa öllum til boða sem vilja nýta sér þá. Það er bara guðvelkomið og myndi gera okkur hjá Skólum mjög stolt og ánægð.“

Vikumatseðill frá Heilsuleikskólanum:

Gufusoðin ýsa með smjöri kartöflum og rófum, Ofnbakaður lambalifrarréttur með kartöflumús, brúnni sósu og grænmeti, Hrært skyr með rjómablandi, ilmandi brauði, áleggi og grænmeti, Ofnsteiktur þorskur með hýðishrísgrjónum, karrýsósu og hrásalati, Ofnsteiktir kjúklingaleggir með heilhveitipasta og salati.“

 

Næringarstefna og sameiginlegur matseðill hjá Skólum ehf.

Rannsóknir sýna að mataræði og næringarástand barna hefur áhrif á heilsu þeirra, þroska, vöxt og alhliða líðan. Skólar kappkosta því að auka velferð barna með góðri næringu og hefur fyrirtækið sett sér sérstaka næringarstefnu varðandi næringu barna á leikskólum sínum. Stefnan er unnin af næringarfræðingi og lýðheilsufræðingi Skóla í takti við opinberar ráðleggingar um mataræði og næringarefni frá Embætti landlæknis.

Til að tryggja framgöngu stefnunnar hefur næringarfræðingur fyrirtækisins, ásamt matráðum leikskólanna, unnið 8 vikna sameiginlegan matseðil þar sem horft er á næringarsamsetningu hvers dags í heild sinni auk þess sem hver vika uppfyllir öll þau næringarmarkmið sem skólarnir eiga að uppfylla. Þar sem mismunandi næringarefni koma úr mismunandi matvælum er fjölbreytni í fæðuvali í hávegum höfð hjá leikskólum Skóla auk þess sem mikil áhersla er lögð á að elda allan mat frá grunni. Með fjölbreytni að leiðarljósi er passað upp á að ráðlögðum dagskammti (RDS) fyrir hvert og eitt vítamín og steinefni sé náð og stuðlar fjölbreytnin um leið að heilbrigðum matarvenjum barnanna til framtíðar.

Að lokum má geta þess að Skólar voru tilnefndir til Orðsporsins 2014 fyrir þessa vinnu. Það er kynningarnefnd Félags leikskólakennara (FL) og Félags stjórnenda leikskóla (FSL) sem stendur að þessari viðurkenningu sem veitt er í tilefni af Degi leikskólans 6. febrúar ár hvert. Orðsporið er veitt þeim sem hafa unnið að áhugaverðu verkefni í þágu leikskóla og/eða leikskólabarna.

Næringarstefna Skola ehf 2014

 

Áhersluþættir Heilsustefnunnar

Samtök heilsuleikskóla hafa nú gefið út ritið „Áhersluþættir Heilsustefnunnar“. Ritið verður sent til allra heilsuleikskóla á landinu og verður aðgengilegt hér á vefnum. Markmið þessa rits er að ná fram sameiginlegri sýn á áhersluatriði heilsuleikskóla. Kennarar og foreldrar fara saman yfir áhersluþættina og varpa ljósi á hvernig hægt er að gera umhverfið hvetjandi fyrir börnin til aukinnar færni þeirra og þroska. Starfshóp ritsins skipuðu: Berglind Grétarsdóttir, Oddný Þóra Baldvinsdóttir, Ólöf Kristín Sívertsen og Sigrún Hulda Jónsdóttir.

Úr formála ritsins:

„Á aðalfundi Samtaka heilsuleikskóla í Vogum á Vatnsleysuströnd árið 2010 minntist  undirrituð á það í framtíðarsýn sinni að Ungbarnaleikskólinn Ársól í Reykjavík óskaði eftir að verða heilsuleikskóli. Heilsubók barnsins nær hins vegar einungis til barna á aldrinum tveggja  til sex ára og því væri þörf á að skipa starfshóp til að semja „Ungbarnaheilsubók“. Strax sýndu nokkrir kennarar áhuga á því að fara í þennan starfshóp og á fyrsta stjórnarfundi nýrrar stjórnar samtakanna var skipað í hópinn.“

Unnur Stefánsdóttir, frumkvöðull Heilsustefnunnar, júní 2011

Áhersluþættir Heilsustefnunnar 2014

Heilsu- og tannverndarvikur í Kór

Dagana 27.  jan. – 7. feb. verða  heilsuvikur / tannverndarvikur í heilsuleikskólanum Kór í Kópavogi. Börnin munu m.a. fræðast um tennur og tannhirðu og hvað er hollt eða óhollt fyrir þau. Þau verða hvött til að koma einu sinni á þessu tímabili með ávöxt / grænmeti sem þeim finnst gott eða eitthvað framandi í leikskólann. Þessa vikur munu börnin fá að kynnast, fræðast, velta fyrir sér og smakka þá ávexti og grænmeti sem komið verður með. Einnig verður mikil áhersla lögð á hreyfingu, vettvangsferðir, útileiki og fræðslu um hvar og hvernig á að hreyfa sig

25. heilsuleikskólinn vígður 11. desember

Þann 11. desember verður leikskólinn Andabær á Hvanneyri vígður sem heilsuleikskóli. Andabær verður 25. heilsuleiksólinn sem er talsverður áfangi fyrir Samtök heilsuleikskóla og alla sem starfa að heilsustefnunni. Kristín Eiríksdóttir, formaður Samtaka Heilsuleikskóla, mun leiða vígsluathöfnina en hún mun hefjast kl 14:30.

Leikskólinn Laufás stendur fyrir fjölþjóðlegum degi

Leikskólinn Laufás á afmæli í dag. 26 ár eru síðan hann var tekinn í notkun en hann er eini leikskólinn sem starfræktur er á Þingeyri. Árið 2008 fékk hann vígslu sem heilsuleikskóli og hefur verið virkur þátttakandi í Samtökum Heilsuleikskóla síðan þá.

Í tilefni afmælisins verður „fjölþjóðlegur dagur“ og opið hús. Slegið verður upp veislu þar sem foreldrar af ýmsum þjóðernum eru hvattir til að koma með mat í skólann, eitthvað sem er þjóðlegt þannig að fjölbreytileikinn verði sem mestur. Veislan hefst klukkan 9:30 og er opið fyrir alla (foreldra, afa og ömmur, vini og vandamenn).

Alþjóðlegi bangsadagurinn

Þann 27. október á hverju ári er haldið upp á Alþjóðlega bangsadaginn. Í heilsuleikskólunum Ársól, Háaleiti og Kór veður haldið upp á daginn og börn hvött til að taka með sér bangsa í skólann.

Bókasöfn á Norðurlöndum hafa haldið Bangsadaginn hátíðlegan síðan 1998. Hugmyndin var að tengja saman bangsa og bókasöfn því bangsar eru söguhetjur margra vinsælla barnabóka. Auk þess eru bangsar eitt vinsælasta leikfang sem framleitt hefur verið og flestir eiga góðar minningar tengdar uppáhalds bangsanum sínum. Bangsar eru líka tákn öryggis og vellíðunar á sama hátt og bækur og bókasöfn.

Dagurinn sem bangsavinir hafa valið sér er 27. október, afmælisdagur Theodore (Teddy) Roosevelt fyrrverandi Bandaríkjaforseta. Roosevelt var mikill skotveiðimaður og sagan segir að eitt sinn þegar hann var á bjarnarveiðum hafi hann vorkennt litlum, varnarlausum bjarnarhúni og sleppt honum lausum. Washington Post birti skopmynd af þessu atviki sem vakti mikla athygli. Búðareigandi einn í Brooklyn, New York varð svo hrifinn af þessari sögu að hann bjó til leikfangabangsa sem hann seldi sem „Bangsann hans Teddy“ (Teddy´s Bear). Það má segja að þetta hafi verið upphaf sigurgöng leikfangabangsans sem er orðinn vinsæll félagi barna um allan heim.