Aðalfundur Samtaka heilsuleikskóla var haldinn á Akureyri föstudaginn 16. mars sl. Byrjað var á að fara í heimsókn í Heilsuleikskólann Krógaból þar sem Anna R. Árnadóttir leikskólastjóri og Jórunn Jóhannesdóttir aðstoðarleikskólastjóri tóku á móti gestum. Síðan tóku við stíf fundarhöld fram eftir degi í Lions-sal Akureyrar.
Í upphafi fundarins var Unnar Stefánsdóttur minnst með einnar mínútu þögn. Að því loknu hófust venjuleg aðalfundarstörf og var Kristín Eiríksdóttir, leikskólastjóri Árbæjar á Selfossi, kosin formaður samtakanna og Sigrún Hulda Jónsdóttir, leikskólastjóri Urðarhóls í Kópavogi, varaformaður. Í þakkarræðu sinni lýsti Kristín yfir tilhlökkun um að vinna að heilsustefnunni í framtíðinni.
Miklar umræður urðu á fundinum um Heilsubók ungbarna sem samtökin vinna að. Til máls tóku Kolbrún Guðmundsdóttir, Hulda Jóhannsdóttir, Berglind Grétarsdóttir, Ingunn Sveinsdóttir, Oddný Baldvinsdóttir og Sigrún Hulda Jónsdóttir. Fram kom gagnrýni á breytta hugtakanotkun í bókinni sem er í ósamræmi við hugtök heilsustefnunnar og Heilsubókar barnsins, lengd bókarinnar, hversu ítarleg hún væri og að málþroska væri bætt við. Sigrún Hulda Jónsdóttir þakkaði fundarmönnum fyrir góðar ábendingar og sagði að þær myndu nýtast vel í vinnunni sem væri framundan.
Að loknum aðalfundi hélt Díana Gunnarsdóttir heilsusálfræðingur fyrirlestur um heilsu og líðan í dagsins önn. Mikil ánægja var með fyrirlesturinn og að honum loknum héldu fundargestir endurnærðir til síns heima.