Alþjóðadagur hreyfingar í Króki

Alþjóðadagur hreyfingar er föstudaginn 10. maí.  Árlega hvetur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin aðildarþjóðir sínar til að halda alþjóðadag hreyfingar hátíðlegan. Tilgangur dagsins er að minna á lykilhlutverk daglegrar hreyfingar fyrir heilsu og vellíðan fólks á öllum aldri.

Í heilsuleikskólanum Króki var ákveðið að í tilefni dagsins yrði hreyfingin ofarlega á baugi þennan dag  og  öðrum í samfélaginu boðið að hreyfa sig með . Leikskólinn bauð upp á teygjuæfingar með starfsfólki bæjarskrifstofunnar, tók þátt í íþróttatíma með grunnskólabörnum, dansaði með starfsfólki verslunarmiðstöðvarinnar, gerði æfingar með starfsfólki og viðskiptavinum Landsbankans og æfðum pútt  á púttvellinum með eldri borgurum í Miðgarði. Starfsfólk leikskólans tekur þátt í átakinu Hjólað í vinnuna.

Þemavinnan Álfar og tröll í heilsuleikskólanum Króki

Þemavinna heilsuleikskólans Króks  í vor hefur verið að vinna með álfa og tröll . Í listasmiðju hafa börnin verið  að hlusta á ýmsar álfa- og tröllasögur og skoða myndir af tröllum. Þau hafa  síðan unnið myndverk út frá sögunum og búið til álfa, lukkutröll og tröllapotta. Börnin hafa farið í vettvangsferðir út í hraun og fundið álfasteina. Þar hafa  þau lagt við hlustir til að athuga hvort þau heyri í álfum og töldu sig hafa  heyrt eitthvað. Einnig hafa þau verið að byggja álfahallir úr grjóti, spýtum og  öðru smálegu sem þau hafa fundið í umhverfinu. Í listasmiðju er lögð mikil  áhersla á ferlið en minni áhersla á útkomuna. Þar eru börnin að þjálfa  fínhreyfingar (t.d. að beita blýanti og skærum rétt), læra mismunandi aðferðir  og hugtök og æfa samvinnu. Skapandi vinna veitir börnum einnig vettvang til að  öðlast reynslu við að rannsaka umheiminn og með þeim hætti auka skynjun og næmi  fyrir umhverfinu. Í yfirmarkmiðum Heilsustefnunnar kemur fram að stefna skuli  af því að auka gleði og vellíðan.  Í  listsköpun hefur barnið vettvang til að tjá tilfinningar sínar og upplifun á  umheiminum, frjáls og óheft tjáning eykur líkurnar á að einstaklingi líði vel.

Sjá frekari frétt og myndir á heimasíðu leikskólans http://www.leikskolinn.is/krokur/