Unnur Stefánsdóttir leikskólastjóri í Heilsuleikskólanum Urðarhóli í Kópavogi hafði frumkvæði að mótun heilsustefnu fyrir leikskóla. Markmið stefnunnar er að auka gleði og vellíðan barnanna með áherslu á næringu, hreyfingu og listsköpun í leik. Hugmyndafræðin er sú að ef barn fær holla næringu og mikla hreyfingu, þá sprettur fram þörf til að skapa.
Þegar Unnur var ráðin sem leikskólastjóri Urðarhóls (áður Skólatröð) árið 1995 fylgdi hún eftir þeirri hugmynd sinni að heilsa og hreysti yrðu aðaláhersluatriði leikskólans. Unnur horfði ávallt til þess að næring og hreyfing skipti miklu máli fyrir vellíðan og árangur í námi og starfi. Aðrir sem komu að frumkvöðlastarfi heilsustefnunnar voru leikskólakennararnir Arndís Ásta Gestsdóttir, Guðlaug Sjöfn Jónsdóttir og Sigrún Hulda Jónsdóttir en margir aðrir hafa síðan komið að þróunarstarfi stefnunnar.
Urðarhóll var vígður sem fyrsti heilsuleikskólinn á Íslandi 1. september 1996. Kennarar Urðarhóls sömdu og gáfu út Heilsubók barnsins og Guðlaug Sjöfn Jónsdóttir hannaði merki heilsuleikskóla. Fáni með heilsumerkinu er sú viðurkenning sem leikskólarnir fá afhentan ásamt viðurkenningarskjali, þegar þeir hafa uppfyllt þau skilyrði sem heilsuleikskóla ber að gera. Merki heilsuleikskólans táknar Heildin samofin þar sem barnið er í miðjunni umvafið áhersluþáttum heilsustefnunnar og leikskólaumhverfinu, sem vinna saman að því að þroska barnið.
Síðar tóku fleiri leikskólar upp heilsustefnuna og í nóvember 2005 voru stofnuð Samtök heilsuleikskóla. Fyrsti formaður samtakanna var Unnur Stefánsdóttir. Á fyrsta aðalfundi Samtaka heilsuleikskóla árið 2006 var samþykkt að endurskoða viðmið fyrir leikskóla og á aðalfundi árið 2007 í Grindavík voru samþykkt ný viðmið og hafa þeir leikskólar sem hyggjast vinna eftir heilsustefnunni tekið mið af þeim í sinni undirbúningsvinnu. Endurbætt viðmið litu dagsins ljós á 5 ára afmæli Samtaka heilsuleikskóla 4. nóvember 2010.
Unnur Stefánsdóttir lést 8. ágúst 2011 eftir langa baráttu við krabbamein.