Heilsuleikskólinn Garðasel á Akranesi valin Stofnun ársins 2013

Heilsuleikskólinn Garðasel á Akranesi var annað árið í röð valin Stofnun ársins 2013 – í flokki minni stofnana ( 49 starfsmenn og færri). Leikskólinn hlaut einnig þessa viðurkenningu árið 2012

Leikskólinn og starfsfólk hans skapa þessa góðu niðurstöðu þar sem viðhorf, sem byggja á virðingu og umburðarlyndi barna og fullorðinna, eru leiðarljós í daglegu starfi og samskiptum.

Niðurstöður úr könnuninni um valið á Stofnun ársins – Borg og bær 2013 voru kynntar, föstudaginn 24. maí. St.Rv. velur „Stofnun ársins – Borg og Bær“ í annað sinn. Stærsti hópur félagsmanna St.Rv. starfar hjá Reykjavíkurborg en auk þess starfa félagsmenn hjá fyrirtækjum Reykjavíkurborgar, Akraneskaupstað, Seltjarnarneskaupstað,  ríki og fleirum.

Starfsmannafélag Akraneskaupastaðar er hluti af St.Rv og taka félagsmenn því þátt í þessari könnun sem er samstarfsverkefni VR, St.Rv og STFR og um leið stærsta vinnustaðakönnun sem framkvæmd er hér á landi. Í raun er það starfsfólk sem er að dæma gæði vinnustaða sinna út frá átta grunnþáttum. Spurt er um trúverðugleika stjórnenda, starfsanda á vinnustað, ánægju með launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleika í vinnu, sjálfstæði í starfi, ímynd stofnunar/vinnustaðar og ánægju og stolt af að vera starfsmaður á viðkomandi vinnustað. Einkunn er gefin fyrir hvern þátt frá einum og upp í fimm og saman mynda þær svo heildareinkunn

 

Alþjóðadagur hreyfingar í Króki

Alþjóðadagur hreyfingar er föstudaginn 10. maí.  Árlega hvetur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin aðildarþjóðir sínar til að halda alþjóðadag hreyfingar hátíðlegan. Tilgangur dagsins er að minna á lykilhlutverk daglegrar hreyfingar fyrir heilsu og vellíðan fólks á öllum aldri.

Í heilsuleikskólanum Króki var ákveðið að í tilefni dagsins yrði hreyfingin ofarlega á baugi þennan dag  og  öðrum í samfélaginu boðið að hreyfa sig með . Leikskólinn bauð upp á teygjuæfingar með starfsfólki bæjarskrifstofunnar, tók þátt í íþróttatíma með grunnskólabörnum, dansaði með starfsfólki verslunarmiðstöðvarinnar, gerði æfingar með starfsfólki og viðskiptavinum Landsbankans og æfðum pútt  á púttvellinum með eldri borgurum í Miðgarði. Starfsfólk leikskólans tekur þátt í átakinu Hjólað í vinnuna.

Þemavinnan Álfar og tröll í heilsuleikskólanum Króki

Þemavinna heilsuleikskólans Króks  í vor hefur verið að vinna með álfa og tröll . Í listasmiðju hafa börnin verið  að hlusta á ýmsar álfa- og tröllasögur og skoða myndir af tröllum. Þau hafa  síðan unnið myndverk út frá sögunum og búið til álfa, lukkutröll og tröllapotta. Börnin hafa farið í vettvangsferðir út í hraun og fundið álfasteina. Þar hafa  þau lagt við hlustir til að athuga hvort þau heyri í álfum og töldu sig hafa  heyrt eitthvað. Einnig hafa þau verið að byggja álfahallir úr grjóti, spýtum og  öðru smálegu sem þau hafa fundið í umhverfinu. Í listasmiðju er lögð mikil  áhersla á ferlið en minni áhersla á útkomuna. Þar eru börnin að þjálfa  fínhreyfingar (t.d. að beita blýanti og skærum rétt), læra mismunandi aðferðir  og hugtök og æfa samvinnu. Skapandi vinna veitir börnum einnig vettvang til að  öðlast reynslu við að rannsaka umheiminn og með þeim hætti auka skynjun og næmi  fyrir umhverfinu. Í yfirmarkmiðum Heilsustefnunnar kemur fram að stefna skuli  af því að auka gleði og vellíðan.  Í  listsköpun hefur barnið vettvang til að tjá tilfinningar sínar og upplifun á  umheiminum, frjáls og óheft tjáning eykur líkurnar á að einstaklingi líði vel.

Sjá frekari frétt og myndir á heimasíðu leikskólans http://www.leikskolinn.is/krokur/

Velheppnaður aðalfundur

Aðalfundur Samtaka Heilsuleikskóla var haldinn mánudaginn 18. mars sl. og var góð mæting frá heilsuleikskólunum. Heilsuleikskólarnir eru orðnir 21 og þrír leikskólar eru á heilsubraut. Þessi fjölgun gerir það að verkum að samræður verða oft líflegar og hugmyndir um eflingu heilsustefnunnar verða fleiri.

Formaður Samtaka Heilsuleikskóla, Kristín Eiríksdóttir, fór yfir starfið í ársskýrslu og .Anna Árnadóttir, gjaldkeri, gerði grein fyrir ársreikningum. Báðar þessar skýrslur voru samþykktar samhljóða.

Stjórn samtakanna gaf kost á sér til áframhaldandi setu og mun því sitja áfram fram að  aðalfundi 2014. Rætt var um mikilvægi þess að fleiri kæmu að starfsemi samtakanna og voru félgasmenn hvattir til að íhuga stjórnarsetu á næsta ári.

Fundargerð aðalfundar hefur ekki borist enn en verður sett hér inn um leið og hún er tilbúin. Myndir frá aðalfundir eru komnar í myndamöppu.

Anna Árnadóttir, gjaldkeri, gerir grein fyrir ársreikningum